Líkur hafa aukist á lækkun stýrivaxta í maí. Það fer þó eftir verðbólguþróun, verðbólguvæntingum og gengisþróun krónunnar. Greining Íslandsbanka, sem fjallar um vaxtaákvörðun Peningastefnunefndar Seðlabankans, segir í Morgunkorni sínu í dag að verðbólguvæntingar hafi lækkað nokkuð, hvort sem litið er á nýjustu mælingu á verðbólguvæntingum stjórnenda fyrirtækja eða verðbólguálag á skuldabréfamarkaði. Líklega vilji þó Peningastefnunefndin sjá frekari lækkun verðbólguvæntinga ásamt því að verðbólga haldist við markmið áður en ráðist er í lækkun vaxta.

Stýrivextir standa í 6% og hafa þeir gert það síðan í nóvember árið 2012 þegar stýrivextir voru hækkaðir um 25 punkta.

Greining Íslandsbanka segir að þrátt fyrir að líkur á vaxtalækkun sé nokkuð þá sé hún almennt þeirrar skoðunar að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum út þetta ár en að vextir verði hækkaði í tvígang um samtals 0,5 prósentustig á næsta ári.

Rökin fyrir því segir Greining Íslandsbanka vera:

„Við erum þeirrar skoðunar að lækkun verðbólgunnar nú sé tímabundin, m.a. vegna þeirrar tímabundnu áhrifa sem styrking krónunnar undanfarið hefur á verðbólguþróunina. Undirliggjandi þættir benda til nokkurs verðbólguþrýstings litið til lengri tíma og reiknum við með því að þegar kemur fram á næsta ár muni verðbólgan aukast á ný og fara nokkuð yfir verðbólgumarkmið bankans. Reiknum við með því að peningastefnunefndin haldi stýrivöxtum óbreyttum út árið en að hún muni hækka stýrivexti sína í tvígang um samtals 0,5 prósentustig á næsta ári. Rökin fyrir þeim hækkunum verða aukin verðbólga og að slakinn sé að hverfa úr efnahagslífinu. Við reiknum síðan með því að nefndin muni með svipuðum rökum bæta einni 0,25 prósentustiga hækkun við á árinu 2016. Verða stýrivextir bankans þá komnir upp í 6,75%.“