Engin skattrannsókn er hafin á hendur Samherja í Færeyjum, en útgerðarfélagið kveðst hafa fengið það staðfest hjá Eyðun Mørkør yfirmanni færeyska skattsins, TAKS. Þetta kemur fram í frétt á vef Samherja .

Segir Samherji að fréttir Ríkisútvarpsins í gær um skattrannsókn í Færeyjum séu því rangar og byggi á rangtúlkun og útúrsnúningi á ummælum Mørkør í viðtali við Kringvarp Føroya. Samherji hafi „þegar sent fréttastofu Ríkisútvarpsins beiðni um að fréttirnar verði leiðréttar.“

Þess má geta að Viðskiptablaðið sagði frá því síðastliðinn mánudag að íslensk lögreglu- og skattayfirvöld hafi leitað eftir aðstoð til Færeyja vegna rannsóknar á meintum mútu- og skattalagabrotum félaga innan Samherjasamstæðunnar. Var vísað til fréttar Kringvarpsins .

Í frétt Samherja segir að Ríkisútvarpið hafi birt frétt á vef sínum laust eftir hádegi í gær þar sem fullyrt sé að færeysk skattyfirvöld hefðu formlega hafið rannsókn á mögulegum skattalagabrotum Samherja í Færeyjum. Þá hafi þessi sama frétt verið endursögð í sjónvarpsfréttum um kvöldið.

Samherji hafi því látið kanna málið sérstaklega hjá TAKS. „Í skriflegu svari frá Eyðun Mørkør kemur fram að endursögn Ríkisútvarpsins á ummælum hans sé röng. Þá fékk Samherji staðfest að engin skattrannsókn væri í gangi í Færeyjum á hendur félaginu. Í kjölfarið var Ríkisútvarpinu send beiðni um leiðréttingu,“ segir í frétt Samherja.