„Markaðir eru hættir að fá fiðring í magann fyrir vaxtaákvörðunarfundum peningastefnunefndar Seðlabankans, enda hefur nefndin haldið vöxtum óbreyttum sjö fundi í röð,“ segir Greiningardeild Arion banka í stýrivaxtaspá sinni. Deildin segir ekki útlit fyrir að nefndin breyti út af vananum í næstu viku og muni þá halda stýrivöxtum óbreyttum í 6%.

Greiningardeildin segir í Markaðspunktum sínum í dag að peningastefnunefnd seðlabankans hafi verið að prófa sig áfram með framvirka leiðsögn að hætti erlendra seðlabanka sem geti greint eins konar gikki eða þröskulda sem kallað geti á breytingu í peningastefnunni. Þótt leiðsögnin sé ekki jafn áþreifanleg og í Bandaríkjunum þar sem vaxtaskuldbinding peningastefnuyfirvalda hefur beinlínis verið háð yfirlýstu atvinnu- og verðbólgustigi þá hafi tónn nefndarinnar orðið skýrari á undanförnum fundum. Megingikkirnir hér sem peningastefnunefndin tilgreinir eru tveir, það er að segja ríkisfjármálastefnan og kjarasamningar.