Greiningardeild Arion banka gerir ráð fyrir því að 747 þúsund erlendir ferðamenn sæki landið heim á þessu ári og fjölgi þeim nokkuð næstu tvö árin. Deildin spáir því að ferðamennirnir verði tæplega 230 þúsund fleiri á árinu 2015 en þeir voru í fyrra og jafngildir það 36% fjölgun.

Í spá greiningardeildarinnar segir m.a. að í fráviksspá sé reynt að leggja mat á það sem deildin kallar „eldgosaáhrifin“ á komur erlendra ferðamanna til landsins. Reynist þau varanleg gæti ferðamönnum fjölgað um meira en helming á sama tímabili. Slík fráviksspá gerir engu að síður ráð fyrir því að ferðamönnum muni fjölga í eina milljón og fimmtán þúsund betur strax á árinu 2015, en það er um 57% fjölgun á þremur árum.

Greiningardeildin segir orðrétt:

„Fjölgun ferðamanna á Íslandi var meiri yfir árin 2011 og 2012 en nokkur önnur samliggjandi ár síðan mælingar hófust, eða um 40% samtals. Það bendir enda margt til þess að komur ferðamanna hafi tekið kerfislægum breytingum á þessum skamma tíma, en marka má upphaf breytinganna með gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010. Þá gerðust margir hlutir samtímis; fyrir það fyrsta beindust augu heimsins að Íslandi þegar umfjöllun um röskun flugumferðar vegna gjósku í háloftunum tröllreið heimsbyggðinni. Þótt gosið hafi þannig komið niður á ferðaþjónustunni á árinu 2010 bendir ýmislegt til þess að það hafi hjálpað í framhaldinu. Sama ár var aukinn kraftur settur í kynningarsamstarf stjórnvalda og ferðaþjónustunnar, fyrst undir merkjum markaðsátaksins Inspired by Iceland og nú undir merkjum Ísland – allt árið. Til viðbótar hefur handfylli kvikmyndavera verið við tökur á alþjóðlegum stórmyndum hér á landi síðan sem enn hefur aukið við hróður landsins á erlendri grund, ekki síst því þekktir leikarar sem sótt hafa Ísland heim hafa ljáð aðdráttarafli þess máls á opinberum vettvangi. Sennilegast hefur veikt gengi ekki skemmt fyrir, þótt gengisáhrif séu ekki marktæk í neinu líkani sem við höfum metið og því sé það tæpast afgerandi þáttur.“