Nýlegt álagspróf, sem lagt var á evrópska banka, var gallað og í raun eru nokkrir stórir evrópskir bankar ekki með nægilegt eigið fé til að standast annað hrun á fjármálamörkuðum. Er þetta meðal niðurstaðna rannsókna, sem unnar voru af Keefe, Bruyetta & Woods og Dönsku alþjóðamálastofnunarinnar. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknanna hefðu stórir bankar á borð við Deutsche Bank og BNP Paribas fallið á prófinu, ef tekin hefði verið með í reikninginn krafa um viðbótar 3% eiginfjárhlutfall sem taka á gildi á næsta ári.

Samkvæmt þriðju rannsókninni, sem unnin var af Centre for European Policy Studies í Brussel, hefðu Deutsche og BNP staðist prófið, en 28 aðrir bankar hefðu fallið.

Samkvæmt nýjum stöðlum eiga bankar að hafa tiltækt eigið fé sem samsvarar 3% af heildareignum. Er þetta til viðbótar við kröfur um áhættuvegið eigið fé. Hefði Evrópski seðlabankinn tekið þessa nýju kröfu með í reikninginn hefðu tólf stórir evrópskir bankar, sem stóðust próf bankans, þurft að afla sér samtals um 66 milljarða evra til að uppfylla eiginfjárkröfurnar.