Samkvæmt Greiðsluhegðunarvísi Evrópu sem Intrum Justitia lét gera um alla Evrópu töpuðu evrópsk fyrirtæki metupphæð, 250 milljörðum evra, vegna óinnheimtra reikninga árið 2007.

Þessi upphæð jafngildir næstum allri innanlandsframleiðslu Belgíu, segir í tilkynningu frá Intrum. Í þessari árlegu mælingu er lagt mat á greiðsluhegðun aðildarríkja Evrópusambandsins.

Þá kemur fram að lönd Suður-Evrópu eru fremst í flokki er kemur að vanskilum, en Norðurlönd standa sig hins vegar best í þessu efni.

„Þessi þróun er áhyggjuefni,“ segir Michael Wolf, forstjóri Intrum Justitia í Evrópu í tilkynningunni. „Slök frammistaða í greiðslu skulda hefur mjög hamlandi áhrif á þróun efnahagsmála í Evrópu.“

Þá kemur fram að það var ekki einungis heildarupphæð útistandandi reikninga sem náði nýjum methæðum; hlutfall ógreiddra reikninga var einnig í sögulegu hámarki (2%, samanborið við 1,9% árið 2007).

„Meðaltalsfjöldi daga áður en reikningur var greiddur í Evrópu fór upp í 55,5 – sem er nær fjórum vikum of seint. Enn einu sinni voru það evrópskar ríkisstofnanir sem voru skuldseigastar, en þær voru að meðaltali 65 daga að greiða reikninga. Samsvarandi tala fyrir viðskiptalífið er 55 dagar og 40 fyrir einstaklinga,“ segir í tilkynningu Intrum.

Ófullnægjandi starfsaðferðir

Meginástæður þess að greiðslur berast ekki eða seint felast í óskilvirkum innheimtuaðferðum og því að fyrirtæki skortir oft hæfni í innheimtu vanskilareikninga eftir því sem kemur fram hjá Intrum.

Michael Wolf telur þetta óskiljanlegt. „Fyrirtæki hafa látið blindast af efnahagslegu góðæri undanfarinna ára. Þeim vegnar vel og þau skila góðum hagnaði. Þar að auki finnst þeim óviðeigandi að taka það upp við viðskiptavini sína hvernig greiðsluhegðun þeirra er. Þau hafa misst sjónar á þeirri staðreynd að bankarnir bregðast við lánsfjárkreppunni með því að halda að sér höndum með lánveitingar og lánin hafa orðið dýrari. Þetta verður að breytast.“

Þróun á Íslandi

Samkvæmt könnuninni sem var framkvæmd hér á landi í janúar og febrúar 2008 virðist greiðsludráttur minnka lítillega og fer úr 8,2 dögum í 6 að meðaltali „þrátt fyrir neikvæða þróun efnahagslífsins,“ segir í tilkynningunni.

Á móti kemur að viðskiptakröfum eldri en 90 daga virðist vera að fjölga og hlutfall tapaðra krafna hækkar ennfremur í 1,5% í 1,6%.

„Þetta er í takt við þá þróun sem verið hefur síðustu mánuði“ segir Sigurður Arnar Jónsson forstjóri Intrum á Íslandi.

„Síðustu mánuði hafa margir viðskiptavinir markvisst undirbúið sig fyrir aukin vanskil með því að stytta greiðslufresti og setja upp skilvirkari ferla. Kröfum sem koma til innheimtu hefur að fjölgað lítillega undanfarið og greiðslugeta einstaklinga og fyrirtækja virðist almennt vera að minnka, því miður. Þetta getur haft mikil áhrif á rekstur fjölda fyrirtækja enda oft stutt á milli taps og hagnaðar í rekstri. Hjá Intrum þýðir þetta vissulega aukin viðskipti en um leið margfalt meiri vinnu og fyrirhöfn við innheimtuna og því höfum við þurft að taka til aðhaldsaðgerða hér eins og annars staðar.“