Telegraph greinir frá því um helgina að gjaldþrot ferðaskrifstofurisans XL Leisure Group sýni hversu umfangsmiklir íslenskir fjárfestar hafi verið í Bretlandi.

Blaðið segir frá því að eitt af fyrstu fyrirtækjunum til að verða fyrir áhrifum af gjaldþrotinu sé knattspyrnuliðið West Ham, sem hafði 7,5 milljón punda auglýsingasamning við ferðaskrifstofuna. Jafnframt er sagt frá því að yfirtakan á XL Leisure Group hafi verið fjármögnuð með fé frá Landsbankanum, þar sem Björgólfur Guðmundsson er stjórnarformaður – sami maður og á West Ham.

Landsbankinn á verðbréfamiðlunarfyrirtækin Teather & Greenwood og Brigdewell í Bretlandi, og hefur tekist að safna fimm milljörðum punda inn á netinnlánareikninga sína, IceSave.

Telegraph minnist einnig á Kaupþing í frétt sinni, og yfirtökuna á Singer & Friedlander.

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eru síðan eigendur Bakkavarar sem keypti breska matvælaframleiðandann Geest, sem er einn stærsti birgir matvöruverslana þar í landi. Einnig er minnst á fjárfestinuna í samlokurisanum Greencore.

Vart er hægt að minnast á fjárfestingar Íslendinga í Bretlandi án þess að líta til Baugs, sem nú íhugar að flytja höfuðstöðvar sínar þangað. Baugur á meðal annars vörumerkin Karen Millen, Oasis, Warehouse, Whistles og verslanirnar House of Fraser, Goldsmiths og síðast en ekki síst, Iceland.