Félag atvinnurekenda segir fjármálaráðuneytið og Póst- og fjarskiptastofnun ósammála um ástæður taprekstrar Íslandspósts, í frétt á heimasíðu félagsins . Ráðuneytið telji orsökina alþjónustuskyldur Íslandspósts og fækkun bréfa, en PFS segi rekstrarvandamál póstsins ekki til komin vegna alþjónustuskyldna.

Félagið hvetur fjárlaganefnd Alþingis til að skoða vel ástæður taprekstrar póstsins, og formaður þess, Ólafur Stephensen, segir það „afskaplega hæpið að Alþingi samþykki hálfs milljarðs króna innspýtingu af fé skattgreiðenda í rekstur Íslandspósts ef tapið er tilkomið vegna rangra ákvarðana stjórnenda fyrirtkæisins um fjárfestingar í samkeppnisrekstri.“

Fjármálaráðuneytið birti á föstudag tilkynningu þess efnis að ríkissjóður hafi lánað Íslandspósti 500 milljónir króna til að styrkja lausafjárstöðu félagsins. Í tilkynningunni segir að Íslandspóstur gegni skyldum ríkisins samkvæmt lögum um póstþjónustu, þar á meðal alþjónustuskyldu sendinga allt að 20 kg. Með lánveitingunni tryggi ríkið tímabundið möguleika félagsins til að standa undir þeim skyldum.

Í tilkynningunni er einnig tekið fram að móta þurfi framtíðarstefnu og áætlun um hvernig haga beri póstþjónustu þannig að hún verði sjálfbær. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið er sagt vinna að endurskoðun gildandi lagaramma „til að tryggja góða póstþjónustu um allt land.“.

Í frétt Félags atvinnurekenda er ráðuneytið sagt ekki virðast horfa til þess að síðustu ár hafi verið mikill hagnaður af einkaréttarþjónustu íslandspósts, en mikið tap á þjónustu sem rekin sé í samkeppni við einkaaðila.

Þá er vísað til ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar um málefni Íslandspósts, nr. 2/2018, þar sem meðal annars segi „PFS vill þó taka fram, vegna ummæla í tilkynningu ÍSP [Íslandspósts] um fækkun dreifingardaga sem lúta að rekstrarafkomu fyrirtækisins í tengslum við þá alþjónustuskyldu sem í dag hvílir á fyrirtækinu, að stofnunin lítur svo á að ÍSP hafi, í gegnum tíðina, verið bætt upp að fullu í gegnum gjaldskrá félagsins innan einkaréttar allan þann viðbótarkostnað sem félagið hefur haft af því að veita alþjónustu, þ.m.t. dreifingu alla virka daga. Að mati PFS eru því möguleg vandamál í tengslum við afkomu fyrirtækisins ekki tilkomin vegna þeirra skyldna sem hvílt hafa á fyrirtækinu vegna alþjónustu á undanförnum árum,“.

Sagt er ennfremur í frétt FA að ljóst sé að lánveitingin muni koma til kasta Alþingis, og sem fyrr segir er fjárlaganefnd hvött til að skoða vel ástæður taprekstrarins.

„Nú gefst fjárlaganefnd Alþingis gott tækifæri til að fá það fram svart á hvítu og opinberlega að Íslandspóstur hafi ekki notað tekjur af einkaréttarþjónustu til að niðurgreiða samkeppnisrekstur. Nefndin fær líka tækifæri til að spyrja hvað ævintýri í samkeppnisrekstri Íslandspósts, eins og uppbygging sendibílaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, rekstur ePósts, fjárfestingin í prentsmiðjunni Samskiptum og ýmis fleiri hafi kostað. Við bíðum spennt eftir að allar þessar upplýsingar komi fyrir almennings sjónir. Það er afskaplega hæpið að Alþingi samþykki hálfs milljarðs króna innspýtingu af fé skattgreiðenda í rekstur Íslandspósts ef tapið er tilkomið vegna rangra ákvarðana stjórnenda fyrirtækisins um fjárfestingar í samkeppnisrekstri.“ er að lokum haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda.