Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta segja ný gögn sýna að formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands sé tvísaga í gerðum sínum og málflutningi varðandi byggingu stúdentagarðs á lóð Gamla Garðs.

Segir félagið, sem nú situr í minnihluta í Stúdentaráði, að ráðið hafi í heild sinni sent út yfirlýsingu á alla fjölmiðla þar sem tekið var fram að ráðið þrýsti á stjórnendur háskólans að byggja á reitnum. Formaður stúdentaráðs, Ragna Sigurðardóttir sem situr í umboði Rösku, samtaka félagshyggjufólks við HÍ, fer svo daginn á fund Háskólaráðs, þar sem hann er meðlimur fyrir hönd stúdenta.

Þar kýs Ragna hins vegar með bókun sem kveður á um að endurskoða þurfi hvort byggja eigi á reitnum, þvert á vilja stúdentaráðs. Lýsir Vaka því yfir vantrausti á formann stúdentaráðs í málinu og krefjumst þess að hún sitji ekki í nefnd sem fjallar frekar um málið og leggur fram tillögur.

Hér á eftir kemur ályktun Vöku í heild sinni um málið:

Í ljósi brýnnar nauðsynjar þess að fleiri stúdentagarðar rísi sem fyrst, þar sem þúsund stúdentar eru nú á biðlista eftir húsnæði, lýsir Vaka - félag lýðræðissinnaðra stúdenta yfir vantrausti á formann Stúdentaráðs í máli er varðar byggingu Stúdentagarða við Gamla Garð. Stúdentaráðsliðar Vöku krefjast þess að hún víki sem fulltrúi nemenda í samráðshópi Háskóla Íslands (HÍ), Reykjavíkurborgar og Félagsstofnunar stúdenta (FS) um málið.

Vaka telur formann Stúdentaráðs vanhæfa sem talsmaður stúdenta í málinu þar sem hún hefur verið tvísaga í málflutningi og afstöðu sinni. Stúdentar verða að geta treyst því að formaður Stúdentaráðs standi með þeim í svo stóru máli en láti ekki þrýsting annarra ráða um afstöðu sína.

Ragna Sigurðardóttir er formaður Stúdentaráðs í umboði Röskvu og situr einnig fyrir hönd nemenda í Háskólaráði, sem er æðsta ákvörðunarvald háskólans. Þann 23. ágúst  s.l. samþykkti Stúdentaráð, með stuðningi beggja fylkinga, bókun sem send var Háskólaráði, þar sem það þrýsti á Háskólaráð um að standa við ákvörðun um byggingu stúdentagarða við Gamla Garð.

Á Háskólaráðsfundi þann 7. september, samþykkti formaður Stúdentaráðs hins vegar bókun þess efnis að endurskoða ætti ákvörðun um byggingu stúdentagarða á reitnum í ljósi afstöðu Minjastofnunar og Húsafriðunarnefndar.

Með atkvæði formanns Stúdentaráðs með bókuninni verður ekki annað skilið en að hún láti álit Minjastofnunar og Húsafriðunarnefndar vega þyngra en hagsmuni stúdenta, þvert á yfirlýstan vilja Stúdentaráðs. Í bókuninni, sem finna má í fundargerð ráðsins, kemur meðal annars fram að nauðsynlegt sé að „endurskoða í samráði við Reykjavíkurborg hvort og þá með hvaða hætti unnt geti verið að nýta lóðina fyrir stúdentagarða eða að finna þeim annan stað á háskólasvæðinu.“

Í kjölfar ákvörðunar Háskólaráðs er ekki tryggt að stúdentagarðarnir verði reistir, þrátt fyrir 30 milljón króna kostnað sem þegar hefur verið lagður í verkefnið af hálfu FS, en formaður Stúdentaráðs hefur sjálf lýst því yfir við stúdentaráðsliða að takmarkað framboð sé á mögulegum lóðum á háskólasvæðinu.

Á Stúdentaráðsfundi, 25.september s.l., sem haldinn var eftir Háskólaráðsfundinn umrædda, upplýsti formaður Stúdentaráðs ráðið ekki um bókun Háskólaráðs né atkvæðagreiðslu sína með henni.

Í október var svo stofnaður samráðshópur HÍ, Reykjavíkurborgar, FS og nemenda til að fjalla um byggingu stúdentagarðanna og skila niðurstöðu við árslok sem lögð verður fyrir Háskólaráð. Með stofnun þessa hóps er ljóst að ákvörðun í málinu mun dragast verulega og frekari seinkanir verða á uppbyggingu stúdentagarða fyrir nemendur.

Formaður Stúdentaráðs hefur tilkynnt Stúdentaráði að hún muni taka sæti í hópnum sem fulltrúi nemenda. Í ljósi þess að hún hefur ekki framfylgt afstöðu Stúdentaráðs í málinu fram til þessa leggst Vaka alfarið gegn því að svo verði.

Þegar fulltrúum Vöku í Stúdentaráði varð ljóst um framvindu þessa máls óskuðu þeir eftir því að haldinn yrði Stúdentaráðsfundur hið fyrsta skv. 44. gr. laga Stúdentaráðs. Lög Stúdentaráðs veita sjö daga svigrúm til boðunar fundar en Vökuliðar óskuðu eftir að hann yrði boðaður sem fyrst í ljósi þess að starfshópurinn mun hefja störf á næstu dögum. Formaður Stúdentaráðs samþykkti því að boða fund tveimur dögum eftir að beiðnin var sett fram.

Á Stúdentaráðsfundinum sem haldinn var í gær, 7. nóvember 2017, bar Vaka upp bókun þess efnis að formaður Stúdentaráðs myndi segja af sér úr fyrrgreindum samráðshópi. Í krafti fjölda síns þvinguðu fulltrúar Röskvu hins vegar fram frestun á málinu og var Stúdentaráðsliðum í kjölfarið meinað að ræða málið, þrátt fyrir að fjöldi þeirra væri á mælendaskrá. Meirihluti Stúdentaráðs, skipaður fulltrúum Röskvu, bar fyrir sig skort á upplýsingum og skamman tíma til að kynna sér málið.

Öll gögn í málinu lágu þó fyrir á Stúdentaráðsfundi þann 23. ágúst þegar Stúdentaráð samþykkti bókun um málið. Síðan þá hefur aðeins bæst við bókunin frá Háskólaráði sem er aðgengileg öllum stúdentum og formaður ráðsins hefði átt að gera Stúdentaráði grein fyrir á Stúdentaráðsfundi 25. september en kaus að gera ekki.

Því er ljóst að málið verður ekki tekið fyrir innan Stúdentaráðs fyrr en um miðjan nóvember, þegar einn þriðji af starfstíma samráðshópsins er liðinn. Vaka krefst þess að formaður Stúdentaráðs víki hið fyrsta úr samráðshóp um málið fyrir fulltrúa sem nýtur trausts beggja stúdentahreyfinga og stendur við yfirlýstan vilja Stúdentaráðs og framfylgi þörfum stúdenta.