Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing segir nýjan hugbúnaðargalla í 737 Max vélunum hafa komið í ljós, en allar flugvélar af þessari gerð eru nú kyrrsettar. Eins og sagt var frá í fréttum fyrr í vikunni hafði verið rætt um að kyrrsetja vélarnar strax í fyrra, en ekki varð af því fyrr en eftir að tvö flugslys höfðu orðið á vélunum.

Segir félagið að ákveðnar öryggisviðvaranir á vélunum hafi ekki virkað á nýju vélunum, en þær gáfu áður til kynna ef misvísandi skilaboð voru að koma frá nemum flugvélarinnar.

Áttu nemarnir að vara flugmenn við því ef sjáflstýrihugbúnaðurinn sem á að koma í veg fyrir að vélin ofrísi, sem vísað hefur verið til sem ástæðu tveggja flugslysa í vélunum á fimm mánaða tímabili, væri við það að fara að grípa inn í.

Var áður staðalbúnaður en nú þurfti að borga

Í frétt WSJ um málið segir að viðvörunarbúnaðurinn hafi verið staðalbúnaður í fyrri vélum, sem flugfélög gerðu ráð fyrir að væri áfram, en í kjölfar fyrra flugslyssins við alþjóðaflugvöllinn í Jakarta í Indónesíu kom í ljós að búnaðurinn virkaði ekki.

Hann hefði hins vegar verið í boði sem aukabúnaður ef greitt væri sérstaklega fyrir hann, a.m.k. fyrsta árið sem Boeing Max 737 vélarnar voru starfræktar.

Hins vegar segir Dennis Muilenburg forstjóri Boeing að allur öryggisbúnaður vélanna hafi virkað sem skyldi, en flugmenn hafi ekki fylgt leiðbeiningum „fullkomlega“ til að koma í veg fyrir þann galla sem virðist hafa valdið flugslysunum.

Segir forstjórinn að ekki sé um galla í hönnun vélanna sjálfra, en talað hefur verið um að lega og stærð hreyflanna, sem hannaður var fyrir aukna sparneytni, auki hættu á ofrisi, sem hugbúnaðurinn hafi átt að koma í veg fyrir.

Var forstjórinn það ákveðinn í að vélarnar væru öruggar að hann og aðrir yfirmenn framleiðandans yrðu í fyrstu farþegaflutningum vélanna, þegar þær myndu á ný hefja sig á flug að því er CNN segir frá.