Framlög til heilbrigðismála aukast um tæpa 5,5 milljarða króna milli ára samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þetta segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðherra. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segist í tilkynningunni binda vonir við að sameining heilbrigðisstofnana muni styrkja þær og efla þjónustu á landsbyggðinni og að innleiðing þjónustustýringar í heilbrigðiskerfinu muni leiða til betri nýtingar fjármuna í þágu sjúklinga.

Fjárframlög til heilbrigðismála samkvæmt fjárlögum þessa árs námu rúmum 127 milljörðum króna en verða á næsta ári tæpir 133 milljarðar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og nemur aukningin 4,3%.

Breytingar á útgjöldum eru m.a. eftirfarandi:
Fjárveiting til öldrunarmála hækkar um 835 milljónir króna að raungildi. Þar af er 350 milljóna króna framlag til reksturs 40 hjúkrunarrýma á Vífilsstöðum.
400 milljónir króna sem áður runnu úr Framkvæmdasjóði aldraðra í rekstur hjúkrunarrýma fara nú óskiptar inn í sjóðinn og nýtast til uppbyggingar hjúkrunarstofnana.
Varið verður 100 milljónum kr. árið 2014 vegna hönnunar sjúkrahótels á lóð Landspítala en stefnt er að því að fullnaðarhönnun ljúki árið 2015 og að þá verði hægt að hefja framkvæmdir.
Framlag til kaupa á S-merktum lyfjum hækkar um 670 milljónir króna til að mæta auknum útgjöldum á þessu ári og vegna fyrirsjáanlegrar aukningar árið 2014.
Varið verður 1.500 milljónum króna í auknar launagreiðslur á heilbrigðisstofnunum.
Um 350 milljónum króna verður varið í niðurgreiðslu tannlækninga barna á grundvelli samnings við tannlækna.