17. september síðastliðinn undirrituðu fulltrúar íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins nýja samninga um matvælaviðskipti. Samkvæmt samkomulagi málsaðila verða tollar á ýmiskonar varning felldir niður, sem ætti að auka innflutningsfrelsi og rýmka fyrir samkeppnishæfara verðlagi á þessum tilteknu vörum. Fullyrt er í tilkynningu íslenskra stjórnvalda að 340 tollskráningarnúmer verði felld niður. Viðskiptablaðið fjallaði um samkomulagið á sínum tíma .

Samtök verslunar og þjónustu eða SVÞ kynntu sér fyrirkomulagið ítarlega eftir að hafa lesið fréttatilkynningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, og gera þá stóru athugasemd við að það sé einfaldlega farið með rangt mál þegar fullyrt er að tollar verði lagðir niður á 340 tollskráningarnúmer.

SVÞ segja að við nákvæmari skoðun komi í ljós að um 240 númer af þeim 340 sem tilgreind eru bera nú þegar engan toll. Því séu aðeins um 100 tollskráningarnúmer sem verða fyrir einhverjum breytingum. Til að mynda bera vörur eins og sykurvörur, sósur og gerjaðir drykkir engan toll. Aftur á móti mun tollur á súkkulaði, kexi, pítsum og fylltu pasta falla niður.

Samtökin telja mikilvægt að öllum staðreyndum sé haldið vel til haga og að tikynningar ráðuneyta séu í samræmi við það sem er í raun að breytast. Tilvísun í að nýtt fyrirkomulag feli í sér niðurfellingu á 340 tollskráningarnúmerum sé villandi og röng, þar eð aðeins 100 þessara númera höfðu borið skatt fyrir breytinguna.