Eins og sagt hefur verið frá í fréttum ákvað Ríkissjóður á mánudag að nýta forkaupsrétt vegna jarðarinnar Fells í Suðursveit á grundvelli laga um náttúruvernd.

Jörðin er á náttúruminjaskrá en hún inniheldur land að austurströnd Jökulsárlóns á Breiðamerkursandi, eins vinsælasta ferðamannastað landsins.

Í morgun bárust fréttir af því að þegar ákvörðunin hafi verið tekin hafi 60 daga frestur til kaupanna verið útrunninn, en kaupin áttu sér stað 4. nóvember á síðasta ári.

Nú segir mbl.is hins vegar að Sýslumaðurinn á Suðurlandi hafi framlengt frestinn til 10. janúar, og það hafi komið fram 8. nóvember síðastliðinn.

Vísar fréttin í svar fjármálaráðuneytisins um málið sem hafi komið eftir fyrirspurn fjölmiðilsins.

Hins vegar segir Vísir.is að Sýslumaðurinn á Suðurlandi virðist hafa talið rangt í bréfi til fjármálaráðuneytisins, og hann talið að fresturinn rynni út þann 10. janúar.

„Ég hefði haldið að inni í ráðuneyti fjármála væru einstaklingar sem gætu talið þessa daga,“ segir Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Fögrusala í frétt fjölmiðilsins um málið, en þar segir að þessi meinlega villa geti orðið til þess að hið opinbera eignist ekki jörðina.

„Annars er það mín skoðun að hið opinbera eigi að gera annað við einn og hálfan milljarð króna en að kaupa jörð fyrir það“