Greiningarfyrirtækið Analytica segir að fréttaflutningur Ríkisútvarpsins innihaldi meiðandi, villandi og rangar fullyrðingar í garð Analytica. Þetta kemur fram í bréfi Analytica til fréttastofu Ríkisútvarpsins, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Ríkisútvarpið skrifaði frétt um skýrslu greiningarfyrirtækisins Analytica í dag þar sem fjallað var um vinnu og skýrslu sem fyrirtækið vann fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þar segir að helsta heimild fyrir útreikningum Analytica á framfærsluviðmiði sé vefsíðan www.numbeo.com.

Analytica segir að ekkert í skýrslum fyrirtækisins gefi RÚV tilefni til slíkra fullyrðinga - helstu heimildir Analytica séu gögn frá háskólum víða um heim, mestmegnis af vefsíðum viðkomandi háskóla. Þá hefur greiningarfyrirtækið einnig verið í beinum samskiptum við valda háskóla.

Upplýsingar af vef Numbeo voru þá notaðar sem óháð veita til samanburðar við upplýsingarnar frá háskólunum og til þess að staðreyna grunn reiknilíkans sem Analytica útbjó fyrir skýrslugerðina sjálfa.