Fjármálaráðgjöf Capacent gaf í dag út skýrslu um verðmat á stærstu fasteignafélögum landsins, Reitum, Eik og Reginn. Í henni var útboðsferli Eikar sérstaklega gagnrýnt og félagið sagt „varla tækt til verðmats“ vegna skorts á fjárhagsupplýsingum um fasteignafélagið Landfestar sem Eik yfirtók á síðasta ári. Í samtali við Viðskiptablaðið segja bæði Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar, og Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasvið Arion banka (sem sá um útboð Eikar), að það sé rangt að þær upplýsingar hafi ekki verið fyrirliggjandi.

„Ég gæti ekki verið meira ósammála því vegna þess að allar tölur um félagið voru um samstæðuna,“ segir Garðar Hannes um fullyrðingu Fjármálaráðgjafar Capacent. „Þótt þær hafi ekki verið sundurliðaðar þá höfum við litið á þessi félög sem heild. Þetta eru eignarhaldsfélög um mismunandi fasteignir. Eignarhaldsfélög Eikar eru þrettán til fjórtán í heildina og það er í raun tilgangslaust að birta sundurliðaðar upplýsingar um hvert og eitt þeirra.“

Upplýsingar lágu fyrir

Halldór Bjarkar segir fullyrðingar Capacent um skort á upplýsingum vera einfaldlega rangar. „Í fyrsta lagi þá uppfyllti lýsingin öll skilyrði Fjármálaeftirlitsins og var samþykkt af því. Í öðru lagi þá kom fram í útboðslýsingu mjög ítarlegt yfirlit yfir allar eignir félagsins og núverandi og væntar leigutekjur sem er grunnurinn að virðismati fasteignafélaga. Þetta kom allt mjög skýrt fram. Í útboðslýsingu kom líka fram að Landfestar voru með skráðan skuldabréfaflokk og í útboðslýsingu fyrir þann flokk sem var gefinn út í nóvember 2014 þá koma fram allar sögulegar fjárhagsupplýsingar Landfesta. Allar upplýsingar sem þurfti til virðismats á félaginu voru annað hvort ítarlega útlistar í útboðslýsingu eða lágu fyrir í eldri útboðslýsingu Landfesta. Ég tel að allar upplýsingar sem þurfti voru opinberlega aðgengilegar,“ segir Halldór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu í fyrramálið með því að smella á hlekkinn Tölublöð . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Nýtt háskólanám í haftengdri nýsköpun í Vestmannaeyjum.
  • Heilbrigðisstofnun Suðurlands tók yfirdrátt meðan beðið var eftir launabótum frá ríkissjóði.
  • Gæðavottun Sjúkrahússins á Akureyri gæti opnað dyr fyrir útflutning þess á heilbrigðisþjónustu.
  • Bankarnir hafa skilað góðum arði til ríkissjóðs undanfarin ár.
  • Virðismöt greiningardeilda hafa áhrif á verðmyndun í Kauphöll.
  • Losun hafta leggst vel í íslensk nýsköpunarfyrirtæki.
  • Bil atvinnutekna einstaklinga með grunnmenntun og háskólamenntun er lágt hér á landi í evrópskum samanburði.
  • Lee Bucheit er í ítarlegu viðtali.
  • Óðinn fjallar um brauðmolakenninguna.
  • Týr fjallar um kjarasamninga.
  • Þá eru í blaðinu pistlar, myndir og margt fleira.