Talsmenn Landsbanka og Arion banka, þau Kristján Kristjánsson og Iða Brá Benediktsdóttir, segja það alrangt sem kemur fram í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika, að tafir hafi orðið á úrlausnum fyrirtækja í greiðsluvanda. Í skýrslunni segir m.a. að endurskipulagningu útlána til fyrirtækja í greiðsluvanda miði hægt og sömuleiðis að „ skortur á þekkingu innan fjármálafyrirtækja á endurskipulagningu skulda fyrirtækja eftir langt uppgangsskeið" hamli endurskipulagningunni.

Iða Brá Benediktsdóttir, talsmaður Arion banka, segir í samtali við Morgunblaðið að þetta eigi ekki við um bankann enda hafi öll fyrirtæki sem falla undir Beinu brautina fengið tilboð um endurskipulagningu skulda og fleiri til. Þá segir í skýrslunni að of mikil áhersla sé lögð á lengingu lána. Morgunblaðið hefur eftir Kristjáni Kristjánssyni að hjá Landsbankanum átti menn sig illa á þessum staðhæfingum og bankinn sé ósammála þeim.