Sjóðastýringarfélagið Gamma er heilinn á bak við tilboð fasteignafélagsins Regins í fasteignafélagið Eik, að sögn Morgunblaðsins. Blaðið segir sjóði á vegum Gamma eiga hlutabréf í bæði Eik og Reginn, það sé stærsti einstaki hluthafinn í Eik og eiga litlu meira en Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, sem er næst stærsti hluthafinn.

Blaðið fjallar um kaupviðræður Regins við hluthafa Eikar annars vegar og viðræðna Landfesta við stjórn Eikar um samruna. Reginn skilur eignir fasteignafélagsins SMI frá tilboði sínu. Það er hins vegar inni verði af samruna Lanfesta og Eikar.

VB.is hefur fjallað talsvert um málið síðan Reginn lagði fram yfirtökutilboð í Eik í byrjun mánaðar. Stjórn var ekki gert tilboð heldur hluthöfum Eikar. Í þessari viku mælti svo Arion banki fyrir því að Landfestar, fasteignafélag í eigu bankans hefji samrunaviðræður við stjórn Eikar.

Í Morgunblaðinu í dag segir að hluthafar Eikar standi frammi fyrir fjórum valkostum. Þeim stendur til boða að sameina félagið tveimur fasteignafélögum og kaupa þekktar eignir af þriðja eða geta kosið að reka fyrirtækið áfram í núverandi mynd. Þá segir blaðið að þeir sem til þekki þyki það fýsilegur kostur að Eik kaupi eignir af SMI og sameinist síðan Landfestum. Eignasöfn Eik og Landfesta passi vel enda bæði félögin stórtæk í miðborginni, Borgartúni og í Ármúla.

Fjallað er jafnframt ítarlega um fasteignafélögin í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .