Styrking íslensku krónunnar hefur ekki skilað sér sem skyldi í auknum kaupmætti almennings, en þetta segir Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur hjá ASÍ, í samtali við Morgunblaðið .

ASÍ telur að styrking krónunnar hafi ekki skilað sér að fullu til neytenda og að fyrirtæki ætli að nýta sér nýgerða kjarasamninga til að hækka frekar álagningu sína. Ólafur Darri segir að krónan hafi styrkst að meðaltali um 3,4% frá áramótum en innfluttar vörur hafi á sama tímabili hækkað í verði um 3,5%, sé horft framhjá tímabundnum áhrifum af sumarútsölum.

Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir í samtali við Morgunblaðið að krónan hafi styrkst um u.þ.b. 2% gagnvart helstu viðskiptamyntum í ár. Styrking um 1% hafi áhrif til 0,3- 0,4% minni verðbólgu í kjölfarið.