Að sögn stjórnenda nýs eiganda Borgunar er góð og gild ástæða fyrir því að kaupandi greiðslumiðlunarfyrirtækisis sé skráður á Cayman-eyjum. Slíkt sé algengt hjá fyrirtækjum ytra. Starfsemi Borgunar muni taka einhverjum breytingum sem miði að því að sníða þjónustuna betur að þörfum viðskiptavina. Íslandsbanki segir að hagstæðasta tilboðinu hafi verið tekið. Kaupin eru háð grænu ljósi frá Fjármálaeftirlitinu.

Sagt var frá því í liðinni viku að Salt Pay Co. Ltd. hefði keypt tæplega 96% hlut í Borgun. Seljendur voru annars vegar Íslandsbanki, sem átti 63,5% hlut, og Eignarhaldsfélagið Borgun með tæplega þriðjungshlut. Síðarnefnda félagið er samlagsfélag sem meðal annars er í eigu Einars Sveinssonar og Stálskipa. Samkvæmt tilkynningu um kaupin er kaupverð trúnaðarmál en heimildir Viðskiptablaðsins herma að það sé um fimm milljarðar króna. Það er umtalsvert undir þeim 19 til 26 milljarða króna verðmati sem KPMG vann fyrir félagið árið 2015 í tengslum við yfirtökutilboð breska félagsins UPG. Sagt var frá því í Markaðnum fyrir rúmum mánuði að mögulegt kaupverð væri um sjö milljarðar króna en breytinguna síðan þá má líklega rekja til þess að forgangshlutabréf félagsins í Visa Inc. fylgja ekki með í kaupunum. Heimildir blaðsins herma enn fremur að áhugi hafi verið á fyrirtækinu af hálfu innlendra aðila, sem jafnvel hafi haft hug á að greiða hærra verð, en þeir hafi verið útilokaðir frá söluferlinu. Gerð hafi verið krafa um slíkt af hálfu erlendra þátttakenda í söluferlinu.

Afar takmarkaðar upplýsingar er hægt að finna um Salt Pay á veraldarvefnum eða í opinberum gagnagrunnum ytra. Samkvæmt skráningu hjá Verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna (e. U.S. Security and Exchange Commission) er heimilisfang félagsins í póstboxi á Grand Cayman, stærstu eyju Cayman-eyjaklasans. Sé umrætt heimilisfang borið saman við upplýsingar sem finna má í Panamaog Paradísarskjölunum má sjá að nokkur félög hafa í gegnum tíðina verið skráð á sama heimilisfang. Engar upplýsingar er þar að finna um endanlega eigendur félagsins, skjöl um hvenær félagið var stofnað eða um rekstur þess.

Í skriflegu svari bankans við fyrirspurn blaðsins segir að í söluferlinu hafi verið lagt í áreiðanleikakönnun, eftir kröfum um varnir gegn peningaþvætti, þar sem kaupandi var grandskoðaður og uppruni fjármagnsins staðfestur. Þá segir Íslandsbanki enn fremur að söluferlið hafi verið gagnsætt og að öllum hafi gefist kostur á að taka þátt. Að endingu hafi hagstæðasta tilboðinu verið tekið.

Tengingar til Brasilíu

Í tilkynningu bankans sagði að Salt Pay væri fjölþjóðlegt fyrirtæki með starfsemi í fjórtán löndum. Litlar upplýsingar um hana er hins vegar að finna. Samkvæmt svari nýrra eigenda við spurningum blaðsins er félagið með starfsemi í Bandaríkjunum, Suður-Afríku, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Singapúr og níu ríkjum Evrópu. Má þar nefna Bretland, Luxemborg, Danmörk, Svíþjóð, Holland og Þýskaland.

Samkvæmt heimildum blaðsins er forstjóri Salt Pay hinn brasilíski Eduardo Pontes og formaður stjórnar er Ali Mazanderani. Síðarnefnda nafnið er ekki óþekkt hér á landi en Mazanderani hefur setið í stjórn CreditInfo í rétt rúmlega ár eftir að breski fjárfestingasjóðurinn Actis tvöfaldaði hlut sinn í félaginu, úr tíu prósentum í tuttugu.

Nefndur Pontes er meðal stofnenda hins brasilíska StoneCo sem meðal annars sérhæfir sig í stafrænum greiðslum. Fyrirtækið hefur verið skráð á markað í New York og í hópi eigenda má finna Warren Buffett. Þá kom hann að stofnun sjóðsins Arpex Capital Investimentos árið 2011. Mazanderani er síðan í ráðgjafahópi hjá StoneCo auk þess að sitja meðal annars í stjórn Paycorp fyrir hönd Actis.

Hjartað verði áfram á Íslandi

Í svari hins nýja eigendahóps við fyrirspurn blaðsins segir að það sé nokkuð þekkt aðferð að skrá félag á Cayman-eyjum við undirbúning áður en til skráningar á markað kemur. Að þeirra sögn eru hundruð erlendra félaga, sem skráð eru á markað, skráð eða hafi verið skráð á Cayman-eyjum.

„Innanlands má benda á að í hluthafahópi stórs íslensks banka er einn af stærstu hluthöfunum sjóður með tengingu til Caymaneyja,“ segir í svarinu. Heimildir blaðsins herma að stjórnendur stefni að því að koma Salt Pay á markað áður en langt um líður.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .