Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, dregur í efa upplýsingar sem stjórnvöld í Bandaríkjunum segjast hafa og eiga að sýna fram á að stjórnvöld í Sýrlandi hafi staðið á bak við meinta efnavopnaárás í Damaskus fyrir tæpum hálfum mánuði sem varð rúmlega 1.400 manns að bana.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa reynt að finna stuðning fyrir innrás í Sýrland í kjölfar þess að þau sögðust hafa sannanir fyrir því að stjórn Bashar Assads, forseta Sýrlands, hafi staðið á bak við efnavopnaárásina. Áhyggjur af hugsanlegri hernaðaríthlutun í Sýrlandi hafði áhrif á helstu fjármálamarkaði í síðustu viku.

AP-fréttastofan segir í umfjöllun sinni um málið Rússa helstu stuðningsmenn Assads. Fulltrúar landsins í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gengu út af fundi ráðsins í síðustu viku þar sem m.a. reynt var að afla fylgis við hernaðaríhlutun í Sýrlandi. AP segir jafnframt Rússa helstu birgja Sýrlandsstjórnar og afla henni vopn.