Lögmenn þrotabús Glitnis segja útgerðarkonuna Guðbjörgu Matthíasdóttur í Vestmannaeyjum ekki hafa nýtt sér sölurétt félagsins Kristins ehf á um 1,7% hlut í Glitni nokkrum dögum áður en bankinn fór í þrot í október árið 2008 eins og löngum hafi verið haldið fram. Lögmenn Kristins ehf.  halda því á móti fram að þótt félagið hafi ekki selt hlutabréfaeign sína þá hafi svokölluð skaðleysisyfirlýsing tekið gildi í staðinn sem segja má að hafi jafngilt sölu á hlutabréfunum.

Lögmenn Glitnis eru á öðru máli. Þeir segja söluréttinn og skaðleysisyfirlýsingu tvo aðskilda gjörninga og vilja að Guðbjörg endurgreiði þá 3,4 milljarða sem félag hennar fékk fyrir hlutina í Glitni.

Kristinn ehf eignaðist hlutabréfin í Glitni þegar bankinn keypti 39% hlut félagsins og fleiri fjárfesta í Tryggingamiðstöðinni (TM) í september árið 2007.

„Hrein tilviljun“

Guðbjörg Matthíasdóttir
Guðbjörg Matthíasdóttir
Því hefur verið haldið fram til þessa að Guðbjörg, sem átti hlutabréfin í gengum einkahlutafélagið Kristinn ehf., hafi selt hlutabréf sín í bankanum fimmtudaginn 25. eða föstudaginn 26. september árið 2008 fyrir 3,5 milljarða króna. Þremur dögum síðar lýsti ríkisstjórn Geirs H. Haarde því yfir að hún ætlaði að kaupa 75% hlut í bankanum í skiptum fyrir eiginfjárinnspýtingu. Við það hrundi gengi hlutabréfa bankans. Um viku síðar fór hann í þrot og varð hlutafjáreign hluthafa verðlaus með öllu.

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, sem um árabil hefur verið helsti ráðgjafi Guðbjargar í viðskiptum, sagði í samtali við fréttastofu Vísis snemma í október árið 2008 að tímasetning á sölu Kristins ehf á hlutabréfunum í Glitni hafi verið hrein tilviljun.

„Það var gerður söluréttarsamningur um þennan hlut sem gilti í eitt ár þegar Glitnir keypti hlut hennar í TM í september í fyrra. Ég held að sölurétturinn hafi verið virkur í tvo daga þegar Guðbjörg nýtti sér hann á fimmtudag eða föstudag í síðustu viku," segir Gunnlaugur Sævar. Hann bætti við að engu máli hafi skipt hvenær Guðbjörg hefði selt hlutinn vegna samningsins.

Umfangsmikið mál

Slitastjórn Glitnis fór í mál við Kristinn ehf eftir bankahrunið og var það þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. Fyrirtaka var í málinu í morgun. Mál þrotabús Glitnis gegn Kristni ehf er mjög umfangsmikið og hefur gagnaöflun staðið yfir frá í fyrravor. Hún stendur enn yfir af hálfu beggja aðila. Gert er ráð fyrir að aðalmeðferð hefjist í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í haust, líklega í október. Fari svo að Kristinn ehf tapi málinu gæti félagið þurft að endurgreiða þrotabúinu 3,4 milljarða króna.