„Nýverið skrifaði Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor, grein þess efnis að Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands „sætu föst við sinn keip“ að halda því fram að við Íslendingar værum meðal fremstu þjóða þegar kemur að lífskjörum,“ skrifa Ásdís Kristjánsdóttir,forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífisins og Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, í grein sem birtist á visir.is í morgun og er viðbragð við skrifum Þorvaldar frá 12. þessa mánaðar í sama miðli.

„Það kann að vera skoðun prófessorsins á ofangreindum samtökum liti málflutning hans en engu að síður vekur það undrun að prófessor við æðstu menntastofnun landsins skuli ítrekað í umræddri grein mistúlka hagtölur OECD og draga fram illa rökstuddar ályktanir og einfaldlega rangfærslur.“

Þorvaldur Gylfasson, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, dróg í efa staðhæfingar Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs um að meðallaun á Íslandi væru hæst meðal OECD-ríkjanna. Benti Þorvaldur á að gengi krónunnar væri of hátt skráð „eina ferðina enn“ sem skekkti samanburð við önnur lönd. Þá væri landsframleiðsla á hverja vinnustund skárri mælikvarði á lífskjör og miðað við nýjar tölur Hagstofu Íslands væri lífsgæði á Íslandi ofmetin.

„Við höfum séð stöðu Íslands ofmetna áður, síðast með miklum hvelli 2008,“ skrifar Þorvaldur í grein sinni.

Ásdís og Konráð svara þessum atriðum Þorvaldar í grein sinni og fjalla fyrst um landsframleiðslu á mann.

„Í fyrsta lagi dregur Þorvaldur upp þá mynd að samtökin séu viljandi að „blekkja“ almenning með því að birta OECD samanburð á meðallaunum kaupmáttarleiðrétt, þar sem Ísland er í efsta sæti. Ekki er alveg ljóst hver blekkingin er því það er einfaldlega staðreynd að kaupmáttur launa á árinu 2018 var sá hæsti á Íslandi meðal OECD ríkja.

Telur Þorvaldur að réttara sé að horfa til landsframleiðslu á mann, sem vissulega er einnig góður mælikvarði á lífskjör. Þá er einnig rétt sem haldið er fram að Ísland sé ekki efst meðal OECD ríkja miðað við þann mælikvarða, heldur í 7. sæti. Þorvaldur virðist út frá þessu draga þá ályktun að það sé rangt að halda því fram að við stöndum framarlega í efnahagslegu tilliti,” skrifa Ásdís og Konráð.

Þá benda þau á annan mælikvarða á lífskjör sem Þorvaldur minnist ekki á.

„Launahlutfall er mælikvarði á það hversu stór hluti af verðmætasköpun rennur til launþega. Staðreyndin er sú að launahlutfallið á Íslandi um 64% á árinu 2018 og er það hæst meðal annarra OECD ríkja, næst á eftir kemur Danmörk með hlutfallið í rúmlega 60%. Með öðrum orðum rennur hvergi stærri hluti af verðmætasköpun efnahagslífsins til launþega en á Íslandi. Hátt launahlutfall fer því nokkuð langt með að skýra muninn á því af hverju kaupmáttur launa er hvergi meiri en á Íslandi en landsframleiðsla á mann „aðeins“ sú sjöunda hæsta í þessum OECD samanburði. Við erum í fremstu röð á báða mælikvarða þegar allar breytur eru tekna inn í jöfnuna.“

Loks fjalla þau um þá skekkju sem hátt gengi krónunnar kann að valda.

„Þorvaldur virðist einnig telja að framleiðni á Íslandi, hvort sem horft er á landsframleiðslu á mann eða vinnustund sé ofmetin út af háu gengi krónunnar í gögnum OECD og röngum vinnustundum. Þetta er ekki heldur rétt ályktun. Í tölum OECD kemur skýrt fram að gögnin eru kaupmáttarleiðrétt (PPP) sem þýðir að leiðrétt er fyrir gengi og verðlagi. Þá eru nýjar tölur Hagstofunnar um vinnustundir nær því sem þekkist í nágrannaríkjunum en engu að síður véfengir Þorvaldur þær án röksemda,” skrifa Ásdís og Konráð og bæta við í niðurlagi greinarinnar:

„Mikilvægt er að byggja ályktanir um þróun launa og lífskjara á sem bestum hagtölum og forðast eftir fremsta megni að draga fram innihaldslausar ályktanir. Þó enginn haldi því fram að Ísland standi fremst á öllum sviðum stendur Ísland framarlega á mörgum sviðum, sem er fagnaðarefni. Við getum verið stolt af þeim árangri sem hefur áunnist en eigum alltaf að stefna að því að gera enn betur, einkum þar sem við stöndum ekki framarlega.“