Slitastjórn Glitnis vill fá að leggja fram gögn í New York sem sýni að Hannes Smárason hafi haft bein áhrif á lánveitingar bankans.

Ný gögn sem slitastjórn Glitnis fékk nýverið aðgang að sýna að Hannes Smárason, fyrrum stjórnarformaður FL Group, hafi haft bein áhrif á lánveitingar bankans, að mati slitastjórnarinnar. Hún vill fá að leggja gögnin fram í máli sínu í New York gegn Hannesi, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Pálma Haraldssyni, Ingibjörgu Pálmadóttur, Lárusi Welding, Þorsteini M. Jónssyni, og Jóni Sigurðssyni. Slitastjórnin stefndi sjömenningunum og PriceWaterhouseCoopers til greiðslu 250 milljarða króna skaðabótagreiðslu fyrir að hafa rænt Glitni innanfrá. FL Group var stærsti einstaki eigandi Glitnis fyrir bankahrun.

Minnisblað lagt fram

Í umræddum gögnum er meðal annars að finna minnisblað, sem merkt er trúnaðarmál, um kaup FL Group á hlutum í Tryggingamiðstöðinni í september 2007 af félagi sem heitir Hnotskurn ehf. Þar segir að „FL Group mun hlutast til um að Glitnir klári samkomulag við Hnotskurn um losun á 250 milljónum á morgun, en félagið (Hnotskurn) hefur verið í viðræðum um þau viðskipti við Glitni“. Slitastjórnin vill meina að þessi gögn sýni að Hannes hafi haft nægileg völd í Glitni til að tryggja lánveitingu til Hnotskurnar. Auk þess vill hún meina að framlögð gögn sýni að Jón Sigurðsson hafi verið viðstaddur stjórnarfundi í FL Group þar sem umrædd viðskipti voru rædd. Hann hafi síðan haft áhrif á að af viðskiptunum varð.

Hannes hefur neitað því í yfirlýsingum til dómstólsins í New York að hafa haft áhrif á lánveitingar Glitnis.