Trúnaðarmannaráð SFR - stéttarfélags í almannaþjónustu mótmælir harðlega niðurskurði hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum.

Þetta kemur fram í ályktun sem Trúnaðarmannaráð SFR samþykkti í gær og birt er vef sambandsins.

„Á krepputímum á að efla innviði samfélagsins, styrkja velferðar- og heilbrigðiskerfið og tryggja að fólk hafi atvinnu. Á tímum samdráttar eru  ráðstafanir sem auka á atvinnuleysi fráleitar og sýna fyrirhugaðar uppsagnir 20-30 starfsmanna hjá Landhelgisgæslu Íslands glöggt skammsýni og skilningsleysi á þeirri samfélagslegu ábyrgð sem stjórnvöld eiga að axla í erfiðu árferði,“ segir í ályktuninni.

Þá kemur fram að Landhelgisgæsla Íslands er hvort tveggja í senn; löggæslustofnun og björgunarstofnun.

„Það er heimskuleg og illa grunduð aðgerð að segja þar upp fjölda manns og stofna hugsanlega með því lífi og limum fjölda fólks í hættu; lífi sjómanna, vegfarenda, ferðamanna og annarra,“ segir jafnframt í ályktuninni.

„Þess utan er sparnaður ríkisins af því að flytja starfsmenn yfir á atvinnuleysisbætur afar takmarkaður en getur haft mjög alvarlegar félagslegar og sálrænar afleiðingar fyrir þá einstaklinga sem eiga í hlut.“

Sjá nánar vef SFR.