Helga Valfells, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA), segir framsetningu hluta af bókhaldslegu tapi ríkisins í fyrra gefa villandi mynd af stöðu sjóðsins.

Í tilkynningu sem sjóðurinn sendi frá sér í dag kemur m.a. fram að NSA hafi ekki fengið bein framlög frá ríkinu síðan árið 2005 þegar hluti af ágóða vegna sölu Símans var ráðstafað til sjóðsins.

Þá bendir NSA á það að eign ríkisins í sjóðnum hafi verið ofmetin í bókhaldi ríkisins um langt skeið. Um það hafi NSA ekkert haft að segja. Hingað til hafi ekki verið stuðst við ársreikninga  eða álit sjóðsins við matið. Þá er bent á að sjóðurinn beiti varfærnu mati á eignir og bókfæri ekki hagnað fyrr en við sölu þeirra. Gert er ráð fyrir umtalsverðum hagnaði hjá NSA á þessu ári eftir söluna á hlut sjóðsins í Marorku.

Margar eignir ofmetnar í ríkisreikningi?

Við þetta má bæta að greiningardeild Arion banka segir í Markaðspunktum sínum í dag niðurfærsluna á eignarhlut ríkisins á hlutum sínum í NSA koma á óvart Niðurfærslan skýrist af því að hluturinn var ofmetinn verulega í bókhaldi ríkisins. Eigið fé NSA, sem bókfært var á 4,7 ma. í upphafi árs skv. ársreikningi sjóðsins, var fært á tæplega tvöföldu bókfærðu virði hjá ríkinu, eða á 8,6 ma.

Greiningardeildin bendir á að þetta skýrist af því að fá árinu 1998 hafi verið farið með marga eignarhluti ríkisins eins og verðtryggðar eignir í bókhaldinu, án þess að beint tillit væri tekið til þróunar eigin fjár þeirra við rekstur. Í ríkisreikningi nú var gerð tillit til að leiðrétta misræmi sem sumstaðar hafði orðið til vegna þessa, m.a. með niðursfærslu hlutarins í NSA og Byggðastofnun. Misræmið geti vakið upp áleitnar spurningar um bókhald ríkisins og hvort aðrar stærri eignir séu færðar á of háu virði í bókum ríkisins.