Gengi hlutabréfa Marel hefur lækkað um 9,12% á síðastliðnu mánuði og hafa hækkanirnar skapað gott kauptækifæri fyrir fjárfesta að því er kemur fram í nýju verðmati hagfræðideildar Landsbankans sem Fréttablaðið hefur undir höndum og fjallar um. Verðmatið er tæpum 19% hærra en gengi bréfa félagsins eftir lokun markaða í gær.

Hagfræðideild Landsbankans telur verðmatsgengi Marels vera 403 krónur á hlut, en í gær, eftir lokun markaða var gengi bréfa félagsins 339 krónur á hlut. Fjárfestum er því ráðlagt að kaupa bréf félagsins. Verðmatið hækkaði um 5,7% frá því í júní, mælt í krónum.

Gengi hlutabréfa Marel lækkuðu um 8,5% í ágúst, en í verðmatinu er komið inn á það að uppgjör Marels fyrir annan fjórðung ársins 2017 hafi komið á óvart. Þá hafi hagfræðideildin gert ráð fyrir tekjuvexti en hins vegar drógust tekjur Marel saman á ársfjórðungnum. Marel hagnaðist um 18,6 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra hagnaðist Marel um 22,1 milljón evra. EBITDA Marel einnig tíu milljónum evra undir spá hagfræðideildar Landsbankans.

Frá byrjun ársins hafa hlutabréf félagsins þó hækkað um 40,59% og á síðustu tólf mánuðum hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 35,43%.