Viðsnúningur hefur náðst í rekstri stoðtækjafyrirtækisins Össurar og hlutabréf fyrirtækisins vanmetin í báðum kauphöllunum sem þar sem þau eru skráð, að mati IFS Greiningar. Mats- og ráðgjafarfyrirtækið hefur í nýju virðismati breytt fjárfestingarráðgjöf sinni úr halda í kaupa. Hlutabréf Össurar eru skráð bæði í kauphöllina hér á landi og í Kaupmannahöfn í Danmörku.

Rekstrarhagnaður Össurar nam 22 milljónum dala á þriðja ársfjórðungi og hefur hann aldrei verið meiri á einum ársfjórðungi. Hagnaður nam 13 milljónum dala. Það jafngildir tæpum 1,6 milljörðum íslenskra króna og 28% meira en á þriðja ársfjórðungi í fyrra þegar hagnaður fyrirtækisins nam 10 milljónum dala.

IFS Greining hafði spáð því að tekjur myndu nema 104,7 milljónum dala og hagnaði upp á 65,4 milljónir dala. Raunin varð sú að tekjur námu 105 milljónum dala og hagnaði upp á 13 milljónir dala eftir þriðja ársfjórðung. IFS Greining beinir sjónum sínum að rekstrarkostnaði, sem hafi verið nokkru lægri en spáð hafði verið. Hagræðingin fólst m.a. í uppsögnum á fólki, tilfærslu á framleiðslu og tengdum þáttum.

Gengi hlutabréfa Össurar hækkaði um 2% á föstudag og stendur það nú í 203 krónum á hlut. Þá hefur það hækkað um 1,06% í Kaupmannahöfn það sem af er dags og stendur það í 9,55 dönskum krónum á hlut. Það jafngildir 211,3 krónur á hlut.