Tónlistar Harpa fellur mitt á milli þess að vera atvinnuhúsnæði með litlar sem engar leigutekjur og atvinnuhúsnæði sem almennt er keypt til útleigu, samkvæmt áliti lögmannsstofunnar Lex sem unni er fyrir Portus, eignarhaldsfélag tónlinstarhússins í Reykjavík.

Um þetta er fjallað í Fréttablaðinu í dag en forsvarsmenn Hörpu hafa sem kunnugt er átt í deilum við ríkið vegna álagningu opinberra gjalda á reksturinn sem sagður er of þungur.

Í fyrrnefndu lögfræðiáliti kemur fram að Þjóðskrá hafi aðeins horft á byggingarkostnað Hörpu, sem sé óeðlilegt. Miða ætti við byggingarkostnað sambærilegra eigna. Þá ætti að taka tillit til fleiri þátta en byggingarkostnaðar. Þannig kemst lögfræðiálitið að þeirri niðurstöðu að Þjóðskrá hafi ekki gætt jafnræðis og meðalhófs við fasteignamatið.

„Þjóðskrá notar kostnaðaraðferð við fasteignamatið en þá er stuðst við byggingarkostnað, en hann er metinn 28 milljarðar króna. Undir það tekur yfirfasteignamatsnefnd. Aðrar aðferðir eru markaðsaðferð, sem byggir á samanburði við sölu sambærilegra fasteigna, og tekjuaðferð, sem byggir á tekjum og fasteignum og kostnaði vegna þeirra,“ segir í frétt Fréttablaðsins.