Húsnæðisverð í Bretlandi er ofmetið um þriðjung og mun líklega lækka á næstunni samkvæmt skýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Oxford Economics mun birta í vikunni. The Times greinir frá.

Greiningin byggir á hversu viðráðanlegt meðalverð íbúða er miðað við vaxtagreiðslur og laun frá árinu 2000. Niðurstaðan er að greiðslugeta íbúðakaupenda hefur minnkað síðustu vikur þar sem fjármögnunarkostnaður hafur aukist.

Vextir á húsnæðislánum hafa hækkað talsvert frá því að fjáraukalög nýrrar ríkisstjórnar Liz Truss voru kynnt í síðasta mánuði. Í síðustu viku fóru fastir vextir á hefðbundnum fimm ára húsnæðislánum í Bretlandi yfir 6% í fyrsta sinn í tólf ár. Þá fóru fastir húsnæðisvextir til tveggja ára yfir 6% í fyrsta sinn í fjórtán ár. Flest húsnæðislán í Bretlandi bera fasta vexti til tveggja eða fimm ára.

Oxford Economics sagði í síðustu viku að horfur á húsnæðismörkuðum í helstu hagkerfum heims hafi ekki verið dekkri frá árunum 2007-2008. Útlit sé fyrir húsnæðisverð muni lækka, mögulega hægfara eða skarpt. Þá hafi líkur á verðfalli á breska húsnæðismarkaðnum vaxið eftir birtingu framangreindra fjáraukalaga.

Andrew Goodwin, aðalhagfræðingur Oxford Economics í Bretlandi, sagði að greiningin bendi ekki endilega til verðfalls á íbúðum, sér í lagi til skemmri tíma, þar sem margir Bretar hafi tekið lán á föstum vöxtum. Seinna meir muni þó stærri hópur lántakenda finna fyrir hærra vaxtarstigi.

Hann segir þó jákvætt að skuldir heimila á móti tekjum séu lægri í dag en árið 2007. Hins vegar sé erfitt að sjá hvernig koma eigi í veg fyrir fækkun kaupsamninga og leiðréttingu á markaðsverði.

Ráðgjafarfyrirtækið Capital Economics gerir ráð fyrir að húsnæðisverð í Bretlandi lækki um 12% að nafnverði á næstu tveimur árum. Hagfræðingur hjá því sagði við Wall Street Journal að sé breytingin leiðrétt fyrir verðbólgu þá er útlit fyrir að húsnæðisverð muni lækka meira en í fjármálahruninu árið 2008.