Greiningardeild sænska bankans Skandinaviska Enskilda, sem jafnan er kallaður SEB, lítur jákvæðum augum á afskráningu Össurar úr íslensku kauphöllinni, Nasdaq OMX á Íslandi.

Strax eftir að tilkynnt var um ákvörðun stjórnar Össurar í gær var ný greining gefin út. Þar kemur fram að ákvörðunin minni svokallaða Íslandsáhættu sem mun þá væntanlega birtast í betri kjörum á lánamörkuðum í framtíðinni. Einnig muni framboð af bréfum Össurar í dönsku Kauphöllinni aukast.

Að því gefnu að vaxtaálag Össurar minni úr 8,5% í 8% eins og eigi við um sum tæknifyrirtæki hækkar verðmat SEB í 12,5 danskar krónur á hvern hlut í Össuri. Verðmatið hefur hingað til verið 11,5 danskar krónur á hlut.