*

miðvikudagur, 26. febrúar 2020
Innlent 22. október 2018 14:05

Segja íslenska ríkið fjárfesta í bitcoin

Svindlsíðan sem áður líkti eftir Viðskiptablaðinu hermir nú eftir CNN og segir stjórnvöld hafa fjárfest 100 milljónum dala.

Ritstjórn
Mynd af forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttir, er birt með falsfrétt um að fjármálaráðuneytið hafi fjárfest helmingnum af auð sínum í Bitcoin viðskiptasíðu.
Haraldur Guðjónsson

Sömu aðilar og hermdu eftir Viðskiptablaðinu og DV segja nú að íslenska fjármálaráðuneytið, undir forystu Katrínar Jakobsdóttir hafi lagt 100 milljónir í bitcoin rafmyntabrask Bitcoin Revolution.

Eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá var fyrir nokkrum vikum tekið ítarlegt afrit af vef blaðsins og búin til frétt um gríðarlega ávöxtun sem notendur svindlsíðunnar gætu vænst. Um augljóst svindl er að ræða sem lesendur sem sjá þetta koma upp á tímalínu sinni á Facebook eru hvattir til að tilkynna um.

Fór það svo að lögreglan hóf rannsókn á síðunni sem líktist síðu Viðskiptablaðsins það mikið að einstaka aðilar héldu hana vera frá okkur, þó nafnið væri eilítið breytt með því að fella út L úr blaðið. Síðar hermdu viðkomandi aðilar eftir síðu DV, en í þeirra útgáfu hét hún reyndar VD.is en með sömu leturgerð og útlit og íslenska síðan.

Sýna Katrínu Jakobsdóttur sem fjármálaráðherra

Nýjasta útgáfan er undir nafni CNNtech og með haus þaðan en slóðin er samt sem áður alldaygossip.com. Fyrirsögnin að fréttinni, sem er á ensku, er sú að íslenska fjármálaráðuneytið hafi keypt nýtt sprotafyrirtæki fyrir 100 milljónir Bandaríkjadala, og segi að þarna liggi framtíðin.

Eitthvað eru svindlararnir þó að ruglast því að undir mynd af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra segir að íslenska fjármálaráðuneytið hafi nú gert sína stærstu fjárfestingu í byltingarkenndri tækni.

Er fullyrt að fjármálaráðuneytið hafi fjárfest helmingnum af auði sínum í hinu nýja verkefni sem muni endurskapa framtíð fjármálageirans. Þannig virðist því ríkisstjórnin ætla að taka bálkakeðjutæknina með stormi. Þannig hafi ráðuneytið fjárfest 100 milljónum Bandaríkjadala, sem samsvari 11,8 milljörðum íslenskra króna í félaginu á bak við gjaldmiðlabraskarann.

Vitnar síðan í breskan hagfræðing að nafni Robert Heston sem gæti átt að vera viðskiptaritstjóri BBC News á árunum 2014 til 2015 sem hafi sagt að stórir aðilar þyrftu að vakna við nýjan veruleika eftir mikinn vöxt í virði Bitcon á síðasta ári.

Segja verðmæti Bitcoin ná 41 þúsund dölum fyrir lok árs

Segja þeir svo að hagfræðingar spái því að virði Bitcoin eigi eftir að ná 41 þúsund dölum hvert, en á síðasta ári hafi verðmætið náð hámarki í 8 þúsund dölum. Þá hafi 150 þúsund manns orðið milljónamæringar á einni viku.

Síðan er fullyrt að virði Bitcoin hafi hækkað um meira en 30% síðan tilkynnt var um kaupin, en þvert á móti hefur gengið haldið nokkuð stöðugt í kringum 6.400 dali síðustu fimm daga.

Lofa tíföldum hagnaði

Síðan er fullyrt að þrátt fyrir alla bóluna hafi tiltölulega fáir þegar fjárfest í rafmyntinni en gangi spár eftir um hækkunina fyrir lok árs gæti hagnaðurinn orðið 1000%. Síðan er fullyrt að maður að nafni Jeremy Piven hafi auðgast um 6530 dali á einni viku og annar hafi auðgast um 11.105 dali.

Þar á eftir er svo bent á tengil þar sem lesandinn geti tekið þátt í nýja verkefninu með íslensku ríkisstjórninni með því að smella á hlekk. Loks bætist við spurt og svarað linkur og útskýringar á hvernig síðan kaupi og selji bitcoin fyrir notandann og nái að hagnast í flestum viðskiptunum.

Í lokin er svo bætt við að búið sé að uppfæra fréttina, og að síðan sé orðin virk, og hafi tekið við fyrstu 1.000 meðlimunum. Jafnframt að þeir fyrstu sem taki þátt fái gefins 250 dali til að versla með, og til séu 937 sæti fyrir notendur sem vilji nýta sér það.

Það þarf auðvitað ekki að taka fram að um augljóst svindl er að ræða sem lesendur Viðskiptablaðsins eru, líkt og áður, varaðir eindregið við að taka þátt í, hvað þá smella á. Hér að neðan má sjá skjáskot frá síðunni: