Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur sent frá sér fréttatilkynningu að beiðni Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í kjölfar umfjöllunar Kastljóss í gærkvöldi um fjárfestingarsamning ráðuneytisins við Matorku.

Viðskiptablaðið greindi fyrst frá fjárfestingarsamningnum þann 12. mars síðastliðinn, þar sem fram kom að ríkisstjórnin hefði undirritað í lok febrúar fjárfestingarsamning við Matorku vegna áætlana fyrirtækisins um að reisa þrjú þúsund tonna fiskeldisstöð í grennd við Grindavík. Samningurinn felur í sér ýmsar ívilnanir til handa Matorku. Samkvæmt honum er sú ríkisaðstoð sem Matorka fær í formi afslátta af sköttum og opinberum gjöldum metin á 426 milljónir króna. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins koma fram nýjar upplýsingar um þjálfunaraðstoðina sem fyrirtækið á rétt á. Í samningum segir að hún geti numið að hámarki 295 milljónum en í tilkynningu ráðuneytisins segir að Matorka hafi óskað eftir 50 milljóna króna þjálfunaraðstoð. Fái fyrirtækið hana nema styrkirnir samtals 476 milljónum. Fjárfestingarkostnaður verkefnisins í heild nemur um 1.200 milljónum.

Með tilkynningu sinni kveðst ráðuneytið vilja árétta fernt.

Í fyrsta lagi segir það engan efnislegan mun vera á fjárfestingarsamningi við Matorku og öðrum nýlegum fjárfestingarsamningum. Þannig hafi verið farið rangt með í Kastljósinu þegar sagt var að í fjárfestingarsamningi frá 2014 við Thorsil væri gert ráð fyrir 18% tekjuskattshlutfalli og að þar væri ekki gert ráð fyrir þjálfunarstyrkjum. Hið rétta sé að samningurinn sé efnislega sams konar samningi við Matorku og innihaldi bæði 15% tekjuskattshlutfall og kveðið sé á um möguleika á þjálfunarstyrkjum.

Þess skal hins vegar getið að í upphaflegum samningi við Thorsil var gert ráð fyrir 18% tekjuskattshlutfalli, en því var breytt síðar.

Í öðru lagi segir ráðuneytið að hafa beri í huga að þegar fjallað sé um hlutfall ríkisaðstoðar í fjárfestingarsamningi ráðist það af stærð viðkomandi verkefnis og fyrirtækis, og ríkari heimildir séu til að styrkja minni fyrirtæki en stærri samkvæmt EES reglum. Því sé hlutfallið hærra í tilviki Matorku en Thorsil, þótt ívilnanir séu efnislega hinar sömu.

Í þriðja lagi segir ráðuneytið mikilvægt að halda því til haga að umræddir fjárfestingarsamningar feli ekki í sér að afslættir frá tilteknum sköttum séu greiddir beint út, óháð framvindu verkefnisins.

Í fjórða og síðasta lagi segir ráðuneytið að benda þurfi á að í samningnum við Matorku, líkt og við gerð annarra fjárfestingarsamninga, sé það hlutverk nefndar á vegum ráðuneytisins að fara með faglegum hætti yfir umsóknir um ívilnanir og leggja mat á hvort þær uppfylli skilyrði,. Að lokinni yfirferð sé tillaga lögð fyrir ráðherra um afgreiðslu umsóknar. Ráðherra komi því ekki að yfirferð umsókna á fyrri stigum.

„Alfarið er því vísað á bug aðdróttunum um að annarleg sjónarmið, eins og frændsemi eða önnur tengsl, hafi haft áhrif á að gerður var fjárfestingarsamningur við Matorku. Það á hvorki við í þessu máli né öðrum þeim fjárfestingarsamningum sem gerðir hafa verið á undanförnum árum. Allar starfsgreinar eru jafnar fyrir lögum um ívilnanir,“ segir í tilkynningunni.

Tilkynningu ráðuneytisins má lesa í heild sinni hér.