Nú virðist sem í algjört óefni sé komið hjá Kaupfélagi Héraðsbúa og fjárhagsstaðan slík að ógjörningur sé að fleyta rekstrinum áfram.

Þetta kemur fram á vef Austurgluggans en samkvæmt heimildum blaðsins eru Samkaup reiðubúin til að kaupa verslunarrekstur KHB á Austurlandi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Jafnframt mun N1 vilja kaupa hraðbúð og söluskála á Egilsstöðum og Höfn.

Þá kemur fram í frétt Austurgluggans að það hvort KHB komist hjá að óska eftir greiðslustöðvun stendur og fellur með því að gengið verði frá þessum samningum. Skuldir KHB munu nema allt að tveimur milljörðum króna.

Jón Júlíusson, varaformaður stjórnar KHB segir stöðuna sára og mjög óskemmtilega í samtali við Austurgluggan.

„Við vonum að samningar gangi eftir og þá er mikið unnið. Auðvitað er vont að missa forræðið og stjórn yfir verslunarrekstrinum á Austurlandi en mikilvægt að störfin haldist,“ segir Jón sem að öðru leyti vildi Jón lítið tjá sig um málið.

Þá kemur fram að í gær var haldinn fundur stjórnar með starfsfólki á Egilsstöðum og var Gunnlaugur Aðalbjörnsson, kaupfélagsstjóri, ekki á honum. Mun Gunnlaugur þegar hafa sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Uppnám er meðal starfsfólks og vekur athygli að ekki hafði verið talað við starfsfólk annars staðar en á Egilsstöðum í gær.

Í fréttinni kemur fram að 11 starfsmönnum á skrifstofu KHB var sagt upp í gær.

Sjá nánar á vef Austurgluggans.