Forsvarsmenn Kjalars hf., móðurfélags Eglu, vilja koma því á framfæri að félagið er í ábyrgðum fyrir lánum Eglu Invest B.V. Viðskiptablaðið greindi frá því í dag að skuldir þess félags við skilanefndir Kaupþings og Glitnis væru 24,8 milljarðar króna og að engar eignir væru eftir inni í félaginu.

Skuldin er tilkomin vegna endurfjármögnunar á hlutabréfaeign Ólafs Ólafssonar í Kaupþingi.  Einar Páll Tamimi, formaður stjórnar Eglu, sagði að engin ábyrð væri á bréfunum heldur einungis veð í þeim sjálfum. Ekkert væri upp úr því að hafa að setja Eglu Invest B.V.  í þrot, enda væri ekkert eftir í félaginu nema skuldir.

Kjalar getur sem stendur ekki gert upp við kröfuhafa sína. Félagið stendur í málaferlum við skilanefnd Kaupþings vegna 650 milljóna evra gjaldeyrisskiptasamnings. Ef skilanefnd Kaupþings vinnur málið mun Kjalar ekki geta greitt útistandandi skuldir sínar. Ef Kjalar vinnur málið mun félagið geta gert það. Umrætt mál verður flutt öðru hvoru megin við komandi áramót.