Hagstjórnin mun ráða mestu um það hvernig verðbólga mun þróast hér á landi á næstu misserum. Mestu munar um það hvernig fjárlagafrumvarpið mun líta út og áhrif þess á verðlagsþróun og niðurstöður kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þetta er mat greiningardeildar Arion banka sem fram kemur í bráðabirgðaverðbólguspá deildarinnar í kjölfar þess að Hagstofan birti verðbólgutölur í morgun.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,24% á milli mánaða og mælist hún nú 2,2%.

Í bráðabirgðaspá greiningardeildar Arion banka segir að hún geri ráð fyrir litlum verðbólguþrýstingi næstu mánuði og að ársverðbólga verði 2,3% í september en 2,5% í nóvember. Nokkrar ástæður liggi að baki þessum litla verðbólguþrýstingi, að mati deildarinnar.

„Í fyrsta lagi hefur gengi krónunnar verið stöðugt að undanförnu og við áætlum að lítil breyting verði þar á næstu mánuði. Við síðustu vaxtaákvörðun var bent á að umtalsvert gjaldeyrisinnstreymi hefur verið inn í landið yfir sumarmánuðina. Það kemur því ekki á óvart að Seðlabankinn hefur stundað töluverð óreglubundin gjaldeyriskaup síðustu mánuði en gjaldeyriskaup bankans umfram sölu það sem af er ári nema samtals yfir 61 ma.kr. Við teljum að Seðlabankinn muni áfram leggja áherslu á að draga úr sveiflum á gengi krónunnar með inngripum á gjaldeyrismarkaði þegar við á og hindri þannig að gengi krónunnar veikist um of á haustmánuðum. Í öðru lagi er verðbólga í helstu viðskiptalöndum lág um þessar mundir og er útlit fyrir að lítil breyting verði þar á næstu misseri. Í þriðja lagi hefur verð á hrávöru farið lækkandi síðustu mánuði og er almennt gert ráð fyrir áframhaldandi lækkun hrávöruverðs næstu tvö árin sökum örari aukningar á framboði en eftirspurn eftir hrávöru. Í fjórða lagi gerum við ráð fyrir að það hægi aðeins á hækkun fasteignaverðs á haustmánuðum líkt og kom fram hér að ofan en húsnæðisliðurinn hefur verið einn stærsti undirliðurinn í verðbólgunni síðustu mánuði.“