IFS Greining spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum í næstu viku. Í vaxtaspá fyrirtækisins er vísað til þess að krónan hafi styrkst um 7,5% frá síðasta fundi og verðbólga hjaðnað hratt þótt efndir kosningaloforða og komandi kjarasamningar gætu hleypt henni á skrið á ný á næstu mánuðum. Hagfræðideild Landsbankans spáir sömuleiðis óbreyttum stýrivöxtum.

IFS bendir á að virkir raunstýrivextir, miðað við 12 mánaða verðbólgu, eru nú um 2,09% en raunstýrivextir m.v. veðlánavexti SÍ eru um 2,72%.

„Búast má við hækkun raunvaxta í kjölfar hjaðnandi verðbólgu í sumar sem styður við óbreytta vexti og dregur úr slaka peningastefnunnar,“ segir IFS Greining.