Samkeppniseftirlitið ofmat aukningu á rekstrarkostnaði viðskiptabankanna þriggja á árunum 2009 til 2011 um sjö milljarða króna, samkvæmt útreikningum Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF). Útreikningar SFF benda þvert á móti til þess að kostnaðurinn hafi aukist um 11 milljarða á tímabilinu en ekki 18 eins og Samkeppniseftirlitið telur.

Kostnaðurinn var gagnrýndur í skýrslu Samkeppniseftirlitsins sem kom út á föstudag í síðustu viku og heitir Fjármálaþjónusta á krossgötum . Þar sagði m.a. að rekstrarkostnaður bankanna á föstu verði hafi aukist verulega á hverju ári frá hruni. Tekið var dæmi um að rekstur 14 lánastofnana árið 2011 kostaði 30% meira á föstu verði en rekstur 32 lánastofnana fyrir áratug og jafnaðist orðið á við tvo Landsspítala. Að mati Samkeppniseftirlitsins gefur þetta til kynna að samkeppnisaðhaldi í bankaþjónustu sé áfátt því samkeppni hvetur fyrirtæki til hagræðingar.

Samkeppniseftirlitið vanmat samruna

SFF vísar þessum útreikningum Samkeppniseftirlitsins á bug og segir m.a. að dregnar sé ályktanir út frá þeirri tölu þrátt fyrir að fram komi í skýrslunni að þessi aukning skýrist að hluta af aukinni skattlagningu á kostnað bankanna og yfirtöku þeirra á nokkrum fyrirtækjum. Ekki sé gerð tilraun til að leiðrétta fyrir þessum þáttum en getið þess að kostnaðartengdir skattar og gjöld hafi aukist um 1,5 milljarða króna. Nefnd eru þrjú fyrirtæki sem sameinast hafa bönkunum þremur, þ.e. SpKef, Byr og Valitor.

SFF segir orðrétt:

„Staðreynd málsins er að sameiningarnar hafa verið fleiri. Þannig hefur Íslandsbanki sameinast Kreditkortum auk Byrs. Landsbankinn  hefur sameinast Sp fjármögnun og Avant auk SpKef . Þá hefur Arionbanki sameinast Sparisjóði Ólafsfjarðar, keypt Spron Factoring og yfirtekið innheimtu útlánasafna Spron og Frjálsa fjárfestingabankans auk innlána Spron.  Samtals nemur fjöldi starfsmanna þessara fyrirtækja sem runnið hafa inn í bankana um 600 stöðugildum eða  rösklega 20% af starfsmannafjölda bankanna þriggja í lok árs 2008, þ.e. áður en þessar breytingar hófust. Að teknu tilliti til þessara tveggja þátta, þ.e. aukinna skattgreiðslna og samruna er raunhæfara að tala um að kostnaðaraukning bankanna þriggja á árunum 2009 – 2011 nemi um 5 milljörðum króna í stað 18 milljarða.“

Rangt að bera saman sjúkrahús og banka

Þá segir jafnframt:

„Til að hægt sé að draga víðtækar ályktanir um rekstrarkostnað hverju sinni er nauðsynlegt að greina kostnaðarliði þannig að þeir varpi ljósi á gang mála og að sama skapi þurfa ályktanir að byggja á samanburði sem veitir raunverulega innsýn í stöðuna. Það að bera saman rekstur sjúkrahúsa annars vegar og banka hins vegar veitir til að mynda takmarkað svigrúm til að draga ályktanir um stöðu þeirra síðarnefndu. Að sama skapi er rétt að taka fram að þegar ekki liggur fyrir greining á ástæðum kostnaðaraukningar er hætt við því að menn dragi of víðtækar ályktanir.“