Gengisvísitala  krónunnar endaði í 233,7 stigum í gær eftir lítilsháttar veikingu. Gengi krónunnar er nú nálægt því lægsta sem það hefur farið þessu ári, og mun lægra en t.d. peningastefnunefnd Seðlabankans telur ásættanlegt bendir Greining Íslandsbanka á í Morgunkorni sínu.

Greiningardeildin bendir á að krónan hefur síðustu vikur verið að feta sig í átt að nýju jafnvægi í grennd við 230 stig þegar miðað er við gengisvísitöluna en evran hefur verið að sveiflast í kringum 178 krónur á sama tímabili og Bandríkjadollar í kringum 128 krónur. Krónan veiktist um rúmlega 3% gagnvart helstu gjaldmiðlum í júní en það var fyrst og fremst útflæði og væntingar um meint útflæði vegna vaxtagreiðslna til útlendinga sem þá skapaði þrýsting til lækkunar.

Þróun á gjaldeyrismarkaði áhyggjuefni

Greiningardeildin bendir á að seðlabankinn hafi komið til móts við þennan þrýsting með inngripum á gjaldeyrismarkaði sem hafa ekki verið fleiri í einum mánuði það sem af er ári. Það sem af er júlí  hefur krónan svo nánast staðið í stað þrátt fyrir að lítið vaxtaútflæði sé í sjónmáli og horfur á gjaldeyrismarkaði séu í raun með hagstæðasta móti. Bæði er ferðamannatímabilið nú í fullum gangi sem ætti að auka gjaldeyrisinnflæði til landsins og horfur eru góðar varðandi þróun vöruskipta. Þróunin á gjaldeyrismarkaði nú er því áhyggjuefni þar sem krónan nýtur í raun talsverðs meðbyrs um þessar mundir og ætti að geta styrkst í þessu umhverfi.