Stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, keypti gjaldeyri á Lækjartorgi fyrr í dag fyrir krónur.

Samkvæmt tilkynningu frá Heimdalli komu margir með gjaldeyri og keyptu íslenskar krónur af Heimdellingum. Þá kemur fram að lögreglan hafi keyrt framhjá og fylgst með án þess þó að stoppa viðskiptin, þó að þau séu með öllu bönnuð í lögum.

Í ályktun sem Heimdallur sendi frá sér í kvöld kemur fram að félagið telji brýnt að stjórnvöld afnemi gjaldeyrishöft sem allra fyrst.

„Það er sjálfsögð krafa í vestrænu lýðræðisríki að hægt sé að eiga viðskipti með gjaldeyri á frjálsum markaði. Gjaldeyrishöft fela í sér gífurlega frelsisskerðingu og gerir Íslendinga að föngum í eigin landi,“ segir í ályktun Heimdallar.

„Frelsi ungs fólks til athafna, m.a. að flytja eða ferðast úr landi, á ekki að vera háð geðþótta stjórnmálamanna eða embættismanna Seðlabankans. Því er mikilvægt að afnema gjaldeyrishöftin sem allra fyrst.“

Þá segja Heimdellingar að með því að halda krónunni sem gjaldmiðli sé „aðeins verið að reisa hærri girðingar á þá frelsisskerðingu sem Íslendingar búa nú við,“ eins og það er orðað í ályktuninni.

„Kostnaðurinn mun að lokum enda á yngri kynslóðum. Þjóðargjaldmiðill skerðir frelsi einstaklinga, af þeirri einföldu ástæðu að hann er ekki til fyrir fólkið heldur fyrir stjórnvöld til að fela agaleysi í ríkisfjármálum. Það er hægt að afnema gjaldeyrishöftin með því að taka upp aðra mynt, hvort sem það er gert einhliða eða í samstarfi við annað ríki. Það er mikilvægt að bæði stjórnvöld sem og aðrir stjórnmálaflokkar hugi að þessu mikilvæga máli nú í aðdraganda kosninga.“

Loks mótmæla Heimdellingar því að aðeins tveir kostir séu í boði líkt og nýleg skýrsla Seðlabankans um gjaldeyrismál gefi til kynna, en samkvæmt henni stendur Íslendingum til boða að halda krónunni eða taka upp evru í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu.

„Seðlabankinn telur þá kosti eingöngu í boði sem leiða til áframhaldandi tilvistar bankans. Það er skylda okkar allra að horfa til annarra lausna, jafnvel þeirra sem fela í sér niðurlagningu Seðlabankans,“ segir í ályktun Heimdallar.