Greint var frá því í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær að Samtök iðnaðarins (SI) hefðu sent kvörtun til Samkeppniseftirlitsins um að Reiknistofa bankanna (RB) nyti forskots á markaði fyrir upplýsingatækniþjónustu. Telur SI forskotið felast í því að RB geti selt þjónustu til fjármálafyrirtækja án þess að innheimta virðisaukaskatt.

RB segir í fréttatilkynningu að kvörtunin sé byggð á misskilningi. Hið rétta sé að virðisaukaskattur leggist ekki á þjónustu sem veitt sé fjármálafyrirtækjum teljist þjónustan eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í starfsemi banka og fjármálafyrirtækja og veitt í tengslum við fjármálagjörninga. Skipti þannig einu hvort það sé RB eða annar aðili sem veiti bönkum eða fjármálafyrirtækjum slíka þjónustu. Fjármálafyrirtæki geti valið að útvista ákveðnum þjónustuþáttum til annarra félaga, svo sem upplýsingatæknifyrirtækja, án þess að greiða þurfi virðisaukaskatt af þjónustunni.

Segir jafnframt í tilkynningunni að RB njóti því ekki forskots á markaði fyrir upplýsingatækniþjónustu í krafti laga um virðisaukaskatt þar sem undanþágan nái til allra þeirra aðila sem kunni að sinna þeirri þjónustu. Kvörtun SI sé því byggð á grundvallarmisskilningi.