Greiningardeild Arion banka segir urmul af rannsóknum benda til þess að kynjajafnrétti geti stuðlað að hagvexti og efnahagslegum framförum. Þetta kemur fram í nýjum markaðspunktum deildarinnar .

Þar segir að orsakasamhengið þarna á milli sé þó ekki fulljóst, að því leyti að efnahagslegar framfarir geti m.a. fært völd nær konum og þannig aukið kynjajafnrétti. Flestir virðist í það minnsta sammála því að orsakasamhengið virki í báðar áttir að einhverju leyti, en þó séu sumir sem hafi fundið mun sterkari áhrif kynjajafnréttis á hagvöxt heldur en hið gagnstæða.

Meðalhæfni eykst

Greiningardeildin segir að rökin fyrir kynjajafnrétti snúi oftar en ekki að mannréttindum og jöfnum tækifærum. Þau rök séu vissulega veigamest, en minna fari fyrir þeim rökum að kynjajafnrétti geti stutt við og hraðað efnahagslegum framförum.

„Í ofureinfaldri mynd þýðir kynjajafnrétti jöfn tækifæri allra til að nýta sína hæfileika á sem bestan hátt óháð kyni. Áður fyrr höfðu konur síður eða hreinlega enga möguleika á að gegna ýmsum stöðum og störfum í þjóðfélaginu. Það þýddi að minna framboð var af starfskröftum til starfa í stéttum sem áður þóttu karlastéttir, s.s. framkvæmdastjórar, læknar og flugmenn. Líkurnar á því að fá hæfasta fólkið til að gegna hverju starfi aukast til muna með auknu framboði af starfsfólki, s.s. þátttöku kvenna á almennum vinnumarkaði,“ segir í markaðspunktunum.

Þetta er svo útskýrt með eftirfarandi dæmi um vinnumarkað fyrir verðbréfamiðlara, sem lengi vel hafi verið hefðbundið karlastarf:

„Með tilkomu kvenna á markað fyrir verðbréfamiðlara eykst meðalhæfni þeirra umtalsvert eða úr 40 í 45 í þessu dæmi. Með því að geta ráðið verðbréfamiðlara úr stærri hóp eykst samkeppni og þar með líkur á því að hæfasta fólkið. Slíkt eykur að öllu óbreyttu framleiðni sem eykur hagvöxt. Svipað getur átt við margar aðrar stéttir og ekki síður störf sem áður þóttu eingöngu henta konum en karlar hafa í auknum mæli sótt í, t.d. leikskólakennslu,“ segir greiningardeildin.

Aukin atvinnuþátttaka og lækkandi fæðingartíðni

Greiningardeild Arion banka segir að svo virðist sem kynjajafnrétti á Íslandi sé með því mesta sem gerist í heiminum, en það sé lóka svo að miklar efnahagslegar framfarir hafi fylgt auknu kynjajafnrétti síðan í byrjun 20. aldar. Þó að margt komi þar til hafi atvinnuþátttaka kvenna eflaust haft mikið að segja um það hve mikill hagvöxtur hefur verið síðustu 100 ár eða svo.

Þá segir að aukin atvinnuþáttaka og aukinn hagvöxtur endurspeglist að nokkru leyti í lækkandi fæðingartíðni sem rannsóknir hafi sýnt að gerist oft samhliða auknu kynjajafnrétti og aukinni atvinnuþáttöku kvenna. Á myndinni að ofan megi annars vegar sjá þróun landsframleiðslu og hins vegar fæðingartíðni frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

„Af henni [myndinni] að dæma virðist þessi tengsl vera til staðar að nokkru leyti. Frá árinu 1945 hafa Íslendingar notið mikilla efnahagslegra framfara. Sókn kvenna á vinnumarkaðinn samhliða lækkandi fæðingartíðni virðist hafa haft sitt að segja,“ segir í umfjölluninni.

Ekki sjálfgefið að boð og bönn styðji við jafnrétti

Greiningardeild Arion banka segist þó ekki hafa svör á reiðum höndum um hvernig markmiðum um kynjajafnrétti skuli að fullu náð. Það sé t.d. ekki sjálfgefið að boð og bönn geti stutt við jafnrétti í hvers kyns mynd sem er.

„Engu að síður virðast vera sterk hagfræðileg rök fyrir því að standa þurfi vörð um kynjajafnrétti. Raunar er hægt að yfirfæra þau rök á að hvers kyns misrétti og ójöfn tækifæri á grundvelli annars en hæfileika einstaklinga sé skaðlegt efnahagslífinu. Það er eins með mannauð og önnnur verðmæti – það er öllum fyrir bestu að þau séu nýtt á sem hagkvæmastan og skynsamastan hátt,“ segir að lokum í umfjölluninni.