Með nýjum kjarasamningum sem gerðir voru rétt fyrir jól hækkað lægstu laun umtalsvert umfram hærri laun eða nálægt tvöfalt meira, að mati Samtaka atvinnulífsins (SA). Þetta er svipuð niðurstaða og undanfarin ár. SA segir þetta vera sjöunda árið í röð sem lægstu laun hækka umfram hin. SA segir að frá ársbyrjun 2008 til janúar 2014 hækkuðu lágmarkslaun (lágmarkstekjutrygging fyrir fullt starf) um 71% á sama tíma og almennar launahækkanir samkvæmt kjarasamningum námu 28%. Launavísitala Hagstofunnar hefur á þessum tíma hækkað um 40%.

Í tilkynningu sem SA hefur sent frá sér segir að mjög hafi verið rætt um þróun lægstu launa hér á landi í kjölfar kjarasamninganna á milli SA og aðildarsamtaka ASÍ. Hafi samningarnir m.a. verið gagnrýndir fyrir að hækka ekki lægstu laun nægjanlega mikið umfram almenna launahækkun. Niðurstaða samninganna var 2,8% almenn launahækkun, þó að lágmarki 8.000 kr. á mánuði. Sérstök hækkun lægstu launa var útfærð þannig að launataxtar undir 230.000 kr. hækkuðu um 9.750 kr., eða sem samsvarar 5% á lægstu byrjunarlaun.

SA segir orðrétt:

„Það eru takmörk fyrir því hversu mikið lægstu launa geta hækkað umfram laun sem hærri eru. Gögn þar að lútandi voru sett fram í skýrslu aðila vinnumarkaðarins, „Í aðdraganda kjarasamninga“ , í október síðastliðnum fyrir tímabilið 2008-2013. Þar kom fram að stefnan um sérstaka hækkun lægstu launa hafði skilað þeim árangri framan af tímabilinu að launabilin á almenna vinnumarkaðnum minnkuðu en sú þróun stöðvaðist á síðari hlutanum.“

Boltinn er hjá fyrirtækjunum

SA segir ennfremur:

„Mestu máli skiptir hvernig kaupmáttur launa þróast á árinu. Íslendingar eru skaðbrenndir af víxlhækkunum launa og verðlags undanfarin ár og áratugi. Þrátt fyrir að laun hafi hækkað tvöfalt meira á ári að jafnaði undangengna tvo áratugi, samanborið við önnur Norðurlönd, þá hefur kaupmáttarþróun verið lakari hér á landi. Kjarasamningarnir nú eru fyrsta skrefið í átt að kaupmáttaraukningu að norrænni fyrirmynd. Til að svo megi verða þarf hins vegar samstillt átak fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkis til aðhalds í verðhækkunum. Sveitarfélögin hafa þegar gefið tóninn hvað þetta varðar, en flest þeirra hafa lýst yfir að verðhækkanir vegna ársins 2014 verði litlar sem engar. Ríkisstjórnin hefur einnig lagt sitt lóð á vogarskálarnar með fyrirheitum um að verði kjarasamningar samþykktir muni hluti hækkana, sem Alþingi samþykkti fyrir áramót, verða dregnar til baka. Boltinn er því hjá fyrirtækjunum, að leita leiða til að kostnaðarauki samninganna velti ekki út í verðlagið, og þau hafa í hendi sér að samningarnir leiði til aukins kaupmáttar launa á árinu 2014.“