Arðgreiðslu viðskiptabankanna hafa verið litlar sem engar eftir hrun og mikið eigið fé safnast upp í þeim. Hagfræðideild Landsbankans segir að af þeim sökum er rétt að bankanir greiði út meiri arð, a.m.k. í tilviki Landsbankans. Bankinn greiddi út um 10 milljarða króna í arð um síðustu mánaðamót og rann upphæðin að nær öllu leyti til ríkisins sem á 98% hlut í bankanum.

Vilja að arðgreiðslum verði stillt í hóf

Þetta er þvert á það sem Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri mælti fyrir á fundi Seðlabankans fyrr í vikunni þar sem rit Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki, var kynnt. Á fundinum kom fram að mikilvægt sé fyrir Landsbankann að hann stilli arðgreiðslum í hóf.

Tilmæli Seðlabankans rímuðu jafnframt illa við nýtt fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Í því er gert ráð fyrir því að arðgreiðslur frá fjármálastofnunum nemi 8,1 milljörðum króna. Meginuppistaðan er arður frá Landsbankanum. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vísaði þessu á bug í samtali við VB.is í gær og vísaði til þess að áætlun fjármálaráðuneytis byggi á mati upplýsinga frá Bankasýslunni.

Nýta á arðgreiðslur til að lækka skuldir

Í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans í dag segir að við stofnun nýju bankanna hafi verið ákveðið að leggja þeim til tiltölulega mikið eigið fé vegna þeirrar óvissu sem einkenndi efnahagsástandið. Lágmarkseiginfjárkrafa Fjármálaeftirlitsins við stofnun bankanna var 16%.

Hagfræðideildin fjallar um málið í dag og er það framhald af skrifum um fjárhagsstöðu bankanna um mánaðamótin . Hagfræðideildin skrifar:

„Ef miðað er við 20% eiginfjárkröfu var umfram eigið fé inni í Landsbankanum um seinustu áramót um 48 ma.kr. Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins var 15,5 ma.kr. þannig er ljóst að 10 ma.kr. arðgreiðsla, mun ekki minnka eigið fé bankans nema að litlu leyti. Það er ennþá langt í að ríkissjóður nái að losa eign sína í fjármálafyrirtækjum með sölu eigna. Þangað til er spurning, í ljósi sterkrar eiginfjárstöðu, hvort hægt væri að lækka skuldir ríkissjóðs fyrr með arðgreiðslum. “