B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga (LH) stefna í þrot á næstu áratugum. Ekki er gert ráð fyrir frekari framlögum frá ríkissjóði Í núverandi ríkisfjármálaáætlun og tæmast lífeyrissjóðirnir samkvæmt því árið 2027.

Greiningardeild Arion banka fjallar um málið í dag og bendir á að ríkissjóður myndi sem bakábyrgðaraðili þurfa að greiða árlega um 20 milljarða króna til sjóðanna næstu 10 árin frá og með 2027 en eftir það færu greiðslurnar lækkandi. Einnig falla á ríkissjóð greiðslur vegna lífeyrishækkana sem árlega munu nema um 13 milljörðum króna á tímabilinu.

„Það er því ljóst að í ríkisfjármálaáætlun stjórnvalda á næstu árum þarf í auknum mæli að fara að mæta þeim vanda sem blasir við vegna LSR og LH,“ segir greiningardeild Arion banka.