Við eftirlitsheimsókn Vinnueftirlitsins á byggingarvinnustað að Hraungötu 2-6 í Garðabæ á vegum U2-bygg ehf., kom í ljós að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi starfsmanna var ekki í samræmi við lög og reglur að því er segir á vef stofnunarinnar.

Var því öll vinna bönnuð á verkstað þar sem líf og heilbrigði starfsmanna var talinn hætta búinn en í ákvörðuninni er sagt að veigamikil öryggisatriði og aðbúnaður á verkstað hafi verið í ólagi.

Meðal þess sem lýst er að hafi verið í ólagi var ófullnægjandi fallvarnir á verkpöllum við húsið, því víða vanti öll handrið, bæði á pöllunum sjálfum sem og á stigum á milli hæða, eða þau ótraust. Einnig séu stórar hurðir og gluggagöt óvarin sem og að svalir hafi engar fallvarnir.

Einnig er greint frá því að starfsmaður sem hafi verið að stjórna byggingarkrana hafi ekki haft tilskilin vinnuvélaréttindi, það er að hann hafi verið búin með bóklegu réttindin en vanti að fara í verklegt próf. Loks sé ekki girt í kringum krana til að afmarka hættusvæðið sem og að umferðarleiðir um vinnusvæðið séu hættulegar, með mikið af rusli, efni og hálku.

Af þessum ástæðum má ekki hefja vinnu á ný uns búið er að gera úrbætur í samræmi við eftirlitsskýrslu og Vinnueftirlitið hefur leyft vinnu þar á ný. Þrátt fyrir bannið sé þó heimilt að vinna að úrbótum á staðnum.