Hlutur lóðaverðs af byggingarkostnaði íbúðar í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur farið úr 4% árið 2001 í 16% nú. Morgunblaðið hefur í dag upp úr nýrri úttekt Samtaka atvinnulífsins (SA) að hár byggingarkostnaður komi í veg fyrir byggingu lítilla íbúða en einmitt er mikil eftirspurn eftir þeim.

Blaðið segir aukinn kostnað skýrast m.a. af því að lóðaverð hafi margfaldast eftir að sveitarfélög tóku að bjóða upp lóðir og hafa af þeim tekjur langt umfram kostnað við gatnagerð, skipulag og frágang. Þá segir að auknar kröfur í nýrri byggingarreglugerð hafi hækkað byggingarkostnað um allt að 7,5%. Hún hafi jafnframt valdið því að dregið hafi úr framboði einfaldra, ódýrra lítilla íbúða sem séu forsenda fyrir heilbrigðum leigumarkaði.