*

mánudagur, 24. júní 2019
Innlent 14. mars 2018 09:48

Segja Logos hafa verið beitt þrýstingi

Landsbréf kröfðu Logos um að hætta vinnu fyrir Gray Line að sögn forstjórans, en félagið ræður eignarhaldi á Hópbílum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Tafir hafa orðið á meðferð Samkeppniseftirlitsins á kæru Gray Line gegn Isavia vegna „ofurgjaldtöku“ af hópferðabílum á Keflavíkurflugvelli segir í fréttatilkynningu frá Gray Line. Setja þarf nýja lögfræðiþjónustu inn í málið og veldur það töfunum.

Logos lögfræðiþjónusta sem tekið hafði að sér að gæta hagsmuna Gray Line og annast samskipti við Samkeppniseftirlitið fyrir Gray Line, sagði sig óvænt frá verkefninu í byrjun mars. Þetta gerði Logos í framhaldi af kröfu Landsbréfa, sem eru í eigu Landsbankans að því er Gray Line fullyrðir.

Landsbréf ráða eignarhaldi á Hópbílum í gegnum framtakssjóðinn Horn 3. Hópbílar er annað af tveimur fyrirtækjum sem sömdu um greiðslur til Isavia fyrir aðstöðu hópferðabíla fyrir framan flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. 

Engin formleg skýring hefur fengist á því hvers vegna Landsbréf, eigandi Hópbíla, gerði þá kröfu að Logos hætti hagsmunagæslunni fyrir Gray Line segir í fréttatilkynningu Gray Line. Kæra Gray Line á hendur Isavia beindist á engan hátt að Hópbílum og Hópbílar eru ekki aðili að málinu.

„Við erum furðu lostin yfir þessum afskiptum Landsbréfa og skiljum ekki hvað býr að baki. Logos hefur lengi sinnt allri lögfræðiþjónustu fyrir Gray Line,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line.  

„Með ólíkindum er að Landsbréf skuli hafa á hornum sér að það ágæta fyrirtæki starfi fyrir okkur. Það að Landsbréf beiti sér af slíkri hörku bendir til að Hópbílar telji sig hafa sameiginlega hagsmuni með Isavia af því að eyðileggja fyrir málatilbúnaði Gray Line

Þeir hagsmunir hljóta að vera gríðarlega miklir úr því að Landsbréf setja þá pressu á Logos að segja viðskiptavini upp með þessum hætti. En pottþétt eru það ekki hagsmunir neytenda sem eigandi Hópbíla er að hugsa um.“

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Landsbréfa er sjóðastýringarfyrirtækið í eigu Landsbankans, sem er í eigu íslenska ríkisins. Helgi Þór Arason framkvæmdastjóri Landsbréfa er formaður stjórnar framtakssjóðsins Horns 3, sem á allt hlutafé Hópbíla. 

Hermann Már Þórisson starfsmaður Landsbréfa er framkvæmdastjóri Horns 3. Hluthafar eru rúmlega 30 talsins og samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og fagfjárfestum.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is