Már Guðmundsson seðlabankastjóri mun ekki fá bréf þess efnis að staða seðlabankastjóra verði auglýst laus til umsóknar. Þetta herma heimildir VB.is innan Sjálfstæðisflokksins. VB greindi frá því í síðustu viku að ríkisstjórnin þarf að tilkynna Má Guðmundssyni seðlabankastjóra í síðasta lagi á morgun ef hún hyggst auglýsa stöðu hans lausa til umsóknar.

Samkvæmt lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ber að tilkynna skipuðum embættismönnum um slíkt eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími rennur út. Á morgun eru sex mánuðir þar til skipunartími hans rennur út en hann var skipaður seðlabankastjóri 20. ágúst 2009.

Fari svo að honum verði ekki tilkynnt um fyrirætlanir um að staðan verði auglýst þá framlengist skipunartími hans sem seðlabankastjóri sjálfkrafa um fimm ár. Hins vegar hefur verið rætt um að gera breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands og auglýsa þá stöður nýrra yfirmanna bankans sem verða skipaðir samkvæmt endurskipulagðri yfirstjórn bankans. Er litið til þess að slíkt var gert árið 2009 þegar Davíð Oddsson, Ingimundur Friðriksson og Eiríkur Guðnason létu af störfum.