Ekki er að undra að beðið er með eftirvæntingu eftir því hvaða tillögur sérfræðingahópur um aðgerðir gegn skuldavanda heimilanna muni kynna í vikunni, að mati greiningardeildar Arion banka. VB.is sagði í gær að hópurinn muni skila af sér á fimmtudag. Deildin hefur í Markaðspunktum sínum í dag dregið hugmyndir formanna stjórnarflokkanna saman og velt því upp hvað landsmenn geti átt von á. Greiningardeildin segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hafi á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins um síðustu helgi gefið örlitla innsýn í hvers sé að vænta. Á fundinum sagði hann m.a. að til stæði að uppfylla „öll þau fyrirheit sem við höfum gefið. Við ætlum að leiðrétta fyrir sérstökum verðbólguáhrifum sem bankarnir bjuggu til. Við blöndum leiðum í samræmi við stjórnarsáttmálann og þingsályktunartillögu og úr því kemur besta niðurstaðan.“

Fólk hvatt til að breyta lánum

Þá sagði Sigmundur að markmiðið sé einnig að hvetja lántakendur til að umbreyta lánum sínum í óverðtryggð lán gegn leiðréttingu á höfuðstól. Þar sem greiðslubyrði óverðtryggðra lána sé hærri til að byrja með en verðtryggðra þyrfti að skoða möguleika á því að heimili gæti notið skattafsláttar við niðurgreiðslu á lánum svo að ráðstöfunartekjur skertust ekki umfram það sem nú er.

Greiningardeildin segir um tillögurnar:

„Eins og oftast er munu þær sjálfsagt kalla á mikla umræða og sjálfsagt taka breytingum áður en þær verða að lagafrumvarpi sem síðan tekur breytingum í meðförum þingsins. Hins vegar marka tillögur hópsins líklega skref í þá átt sem ríkistjórnin hyggst halda, og þá eru ekki aðeins skuldamál fasteignaeigenda undir heldur einnig vægi verðtryggingar í efnahagslífinu, skuldastaða ríkissjóðs, staða lánveitenda, peningamagn í umferð og möguleikar á áfnámi gjaldeyrishafta. Það er því ekki að undra að markaðir séu nokkuð spenntir fyrir þeim tillögum sem væntanlegar eru á borðið í vikunni.“