Í yfirlýsingu frá samgönguráðherra og Sambandi íslenskra sveitarfélaga segir að afar mikilvægt sé a tryggja að grunnþjónusta hins opinbera skerðist ekki, þrátt fyrir tekjusamdrátt og kostnaðarhækkanir í þeim efnahagsþrengingum sem Íslendingar standa nú frammi fyrir.

„Nú ríður á að innan sveitarstjórna ríki einhugur og samheldni. Styrkur sveitarfélaga til að takast á við þann efnahagsvanda sem nú er við að glíma er mismikill. Hvatt er til þess að sveitarfélög endurskoði fjárhagsáætlanir sínar og geri aðgerðaáætlanir þar sem forgangsröðun verkefna miði að því að treysta stoðir grunnþjónustunnar,“ segir í yfirlýsingunni.

Í yfirlýsingunni segir einnig að ástæða sé til að kanna möguleika á frekari styrkingu Lánasjóðs sveitarfélaga ohf., sem verið hafi sveitarfélögum traustur bakhjarl um árabil.

„Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðuneyti sveitarstjórnarmála munu beita sér fyrir auknu og nánara samráði ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál og framkvæmd opinberrar þjónustu. Í því skyni munu ráðherra sveitarstjórnarmála og forysta sambandsins eiga tíða samráðsfundi og auka gagnkvæmt upplýsingaflæði um fjármál ríkis og sveitarfélaga. Meginmarkmið aðila er að vinna sameiginlega að því treysta velferð landsmanna til framtíðar,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.

Undir hana rita Kristján Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.